150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa samantekt því að þetta er einmitt það sem hefur verið minnst á með velsældarhagkerfið. Það er þessi félagslegi auður og það er þessi efnahagslegi auður og skuldir innan hans sem við þurfum að taka ákvarðanir um en fáum aldrei mælingar á í raun. Við fáum ekki mælingar á því hversu mikið skortur á viðhaldi á efnislegum innviðum sem við eigum, eins og flugvöllum o.s.frv., kostar okkur. Við fáum fullt af svoleiðis upplýsingum um fjárhagslegu innviðina, hvað þeir kosta okkur í vöxtum og því um líku. Án þess að hafa betri upplýsingar þar um, um félagslega auðinn og skuldina þar, innviðaskuldina og efnislegu skuldina hvað vegi og flugvelli varðar — ef við vitum ekki kostnaðinn af þeim skuldum getum við ekki tekið nægjanlega góðar og upplýstar ákvarðanir um það hvert við deilum fjármunum. Ef fólk vissi hversu mikið innviðaskuldin kostar okkur væri kannski hvatning í kosningum eða umboð í kosningum allt öðruvísi eða áherslur allt aðrar.

Ég fagna því svona áherslum í áttina að velsældarhagkerfinu, eða hvaða nafni sem maður vill nefna það. Mér finnst það gott orð. Aðferðirnar þar á bak við eru enn betri, óháð orðinu.

Og að lokum vil ég bæta því við að það er auðvelt að segja í uppsveiflu og miklum hagvexti að vel hafi verið haldið á efnahagsmálum hér. En ég er ekki alveg til í að „bekenna“ að það sé beint orsakasamhengi þar á milli, þ.e. að styrk efnahagsstjórn hafi valdið þessum mikla hagvexti og miklu uppsveiflu þannig að ég myndi vilja hafa varúð á hrósi þar.