150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:06]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Þeirri umræðu sem hefur farið fram okkar í milli, um kolefnisgjöld og ívilnanir til bílaleigubíla, ætla ég að svara með þeim hætti að segja að þessi umræða á að taka nákvæmlega á umræðunni um það hvernig við ætlum að leggja skatta á umferð í landinu. Ég held að mjög hratt dragi að því að við verðum að gera það upp við okkur, bæði til þess að fjármagna nauðsynlegar samgöngubætur og líka til þess að mæta því að bílaflotinn okkar er að breytast mjög hratt og við viljum hvetja til notkunar á vistvænum orkugjöfum. Þess vegna eigum við að setja kíkinn okkar á það hvernig við ætlum að skattleggja umferð, miklu frekar en að ræða ívilnanir á bílaleigubíla eða ekki, sendibíla eða einhverja slíka hluti, og láta hvatana koma fram með almennari hætti en við gerum í dag.

Þetta vildi ég segja vegna þessara vangaveltna þingmannsins í hans andsvari hér því að við slítum þessa umræðu ekki úr samhengi við þann stóra skattstofn sem ríkið hefur af tekjum af umferð sem auðsýnilega eru að dragast saman. Við verðum að geta svarað því hvernig við ætlum síðan að fella það við aðrar breytingar um fjármögnun, t.d. ef sækja á fjármagn til samgöngubóta með öðrum hætti en gert er í dag, sem ég held að við eigum að skoða og ræða — en ekki slíta það úr samhengi og segja veggjöld og veghlið, í engu samhengi við það hvernig við skattleggjum umferð.