150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að halda áfram samtalinu um samnýtingu skattþrepa og reyna að gera grein fyrir því hvernig þau skjöl sem hafa verið lögð fyrir þingið kallast á um það atriði. Þá vil ég fyrst minnast á fjármálaáætlunina og kynningu á hugmyndum um skattbreytingar sem fór fram í vor. Í þeirri kynningu og í undirliggjandi forsendum fjármálaáætlunarinnar var gert ráð fyrir að kostnaður við tekjuskattskerfið yrði tiltekin fjárhæð og að við breytinguna sem þá var boðuð yrði dregið úr heimildum til að samnýta skattþrep samsköttunaraðila. Frá þessu hefur verið fallið. Það mun leiða til þess að skattkerfisbreytingarnar verða umfangsmeiri, í einhverjum skilningi dýrari, kostnaðarmeiri fyrir ríkið.

Það stendur hins vegar sem kemur fram á bls. 107 í fjárlagafrumvarpinu og hv. þingmaður vísaði til. Það leiðir einfaldlega af lagareglunni sem stendur óbreytt í gegnum þessar skattkerfisbreytingar. Lagaheimildin til samsköttunar milli þrepa stendur óbreytt en hún er þannig að hún heimilar mönnum að nýta miðþrepið til samsköttunar. Með því að tekið er upp nýtt lægsta þrep þá hefur það áhrif, eins og segir á bls. 107, á umfang samsköttunar. En heimildin eins og hún er í lögunum er óhreyfð. Það er ekki verið að loka fyrir samnýtingu þrepa og samnýting þrepa mun spara skatta upp á milljarða, kannski 2 milljarða eða meira.