150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn kom mjög mikið inn á báknið í ræðu sinni og talaði um mikinn vöxt ýmissa stofnana og annarra gæluverkefna. Mig langar að ræða aðeins nánar við hann um það sem hann veltir upp. Hann talaði líka um að ef bera þyrfti niður með niðurskurðarhníf væri verið að skera niður störf úti á landi. Það á við rök að styðjast, það hefur oft verið þannig. Ég myndi vilja spyrja þingmanninn um þessi störf sem eru að verða til í höfuðborginni, þar sem hann talar um að báknið sé að stækka, hvort hann væri sáttur við það ef þau væru úti á landi, hvort báknið mætti stækka ef störfin færu út á land. Og hvað er báknið? Í hvað erum við að setja fjármuni? Hann talar um gæluverkefni ríkisstjórnarinnar. Stærsti hluti fjármuna í þessu fjárlagafrumvarpi getur varla talist fara í gæluverkefni, virðulegi forseti. Heilbrigðismálin eru ekki gæluverkefni, þyrlukaup er ekki gæluverkefni. Bygging hafrannsóknaskips er ekki gæluverkefni, að styðja við kennara getur varla talist vera gæluverkefni.

Við erum að tala um stóra samhengið. Við getum verið ósammála um alls konar smærri hluti sem okkur fyndist að fjármunirnir ættu að fara í. En þegar við erum að tala um að báknið sé að stækka verð ég líka að spyrja þingmanninn: Hvar vill hann bera niður í bákninu miðað við það sem stóru peningarnir fara í í fjárlagafrumvarpinu og skera niður? Hvar vill þingmaðurinn bera niður?