150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég kannast ekki við það í minni ræðu, sem tók nú samt tíu mínútur, að hafa nefnt orðið gæluverkefni. Ég kannast ekki við að hafa nefnt það. Ég var aðallega að fjalla um stækkun stofnana og fjölgun stofnana. Ég talaði ekki um gæluverkefni. Ég get haldið langa ræðu um þetta. Ég vann í stjórnsýslunni í 30 ár og stofnanir hafa tilhneigingu til að vaxa og stækka og það er að gerast. Það er að gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar sem er ekki einsdæmi, alls ekki, en það er frumskilyrði og sérstaklega í góðæri að halda aga og festu í ríkisfjármálum, þ.e. í stjórn ríkisfjármála, og senda skýr skilaboð til stofnana ríkissjóðs um að þær sýni það sama í sínum rekstri hvar sem er í kerfinu. Þetta er ekki bara bundið við höfuðborgina en það vill svo til að þegar koma upp hugmyndir um hvar eigi að bera niður þegar á að skera niður stofnanir, hugmyndir sem oft koma upp, þá er yfirleitt fyrsta hugmynd að skera niður úti á landi. Því hef ég mótmælt og ég mótmælti því í minni ræðu áðan. Það var það sem ég meinti. Ég tel að það megi alveg skoða það af fullum þunga að minnka umfang margra stofnana hér á höfuðborgarsvæðinu, ekki síður en úti á landi, en ekki bera alltaf niður úti á landi þegar menn byrja að tala um niðurskurð og fækkun stofnana. Það var umfjöllunarefnið í lok minnar ræðu. Ég talaði ekki um gæluverkefni.