150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að kíkja á ræðurnar á eftir, ég skrifaði beint niður eftir þingmanninum. En hann svaraði ekki þeim spurningum sem ég bar upp. Hvaða stofnanir myndi þingmaðurinn vilja minnka? Væri hann til í að þau störf, sem hann vill fækka á höfuðborgarsvæðinu, fari út á land, t.d. til að styrkja einhverjar stofnanir þar, bæta þeim við? Eða hvað er báknið? Því svaraði þingmaðurinn ekki. Um hvað er hann að tala þegar hann talar um að báknið sé að stækka í fjárlagafrumvarpinu þegar stærstu fjármunirnir fara í það sem ég var að telja upp áðan? Það fara 44 milljarðar í félags- og tryggingamál og heilbrigðismál. Stóru peningarnir eru í þessum geirum, þ.e. heilbrigðis- og tryggingamálunum og í samgöngumálunum og menntamálunum. Hvar vill þingmaðurinn bera niður?

Hér eru framlög til Alþingis og eftirlitsstofnana og æðstu stjórnsýslu. Vill hann hætta við að byggja við Alþingishúsið og að starfsemin verði áfram dreifð um allar koppagrundir? Er það hagkvæmt fyrir ríkissjóð? Nei, það hefur komið fram í fjárlaganefnd að það er það bara alls ekki. Útgjaldaaukningin þar skýrist fyrst og síðast af því en það eru ekki miklir peningar í stóra samhenginu í ríkisfjármálunum og þess vegna spyr ég. Það er óábyrgt að tala um bákn þegar við erum að tala um það sem við erum að reka sameiginlega. Þar eru þessir stóru fjármunir og mér finnst að þingmaðurinn eigi ekki að reyna að skauta fram hjá því með því að fara í einhvern orðhengilshátt við mig, hvort hann hafi sagt gæluverkefni eða ekki gæluverkefni. Þegar Miðflokkurinn kemur fram með tillögur eða hugmyndir þá hlýtur þingmaðurinn að geta svarað því hverjar þær eru. Hvar berum við niður til að fækka stofnunum varðandi þau fjárlög sem hér eru til umræðu?