150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til fjárlaga. Það er undarlegt að tekjuaukning fjárlaga frá 2017–2020 hefur verið um á fimmta tug milljarða á ári eða um 140 milljarða á þremur árum. Ríkisbáknið þenst stjórnlaust út og er á nokkrum tugum ára komið úr 32% af vergri landsframleiðslu í 42% af vergri landsframleiðslu í dag. Af þessari köku á ríkið 30% og tekjuaukning sveitarfélaga hefur nær tvöfaldast á sama tíma eða úr 7% í 14%.

En hefur þessi aukning skilað sér til þeirra sem mest þurfa á henni að halda? Til eldri borgara, öryrkja, láglaunafólks? Nei, það hefur hún ekki gert. Það er mjög sorglegt til þess að vita að fjárlögin eru komin í um 1.000 milljarða og það hefur alltaf verið sagt að þegar góðærið kæmi fengju eldri borgarar, öryrkjar og láglaunafólk bætur sínar og hækkanir. Hæstv. fjármálaráðherra talaði í ræðu sinni að kaupmáttur launa hefði aldrei verið meiri. Fólk sem er á lægstu launum og bótum og á lífeyri kaupir ekki inn fyrir kaupmátt. Það veit ekki af kaupmættinum. Það fær ekki kaupmátt. Þess vegna er það með ólíkindum að tala um að kaupmáttur skili sér til allra. Hann gerir það ekki og það er grafalvarlegt mál þegar þeim sem verst hafa það hér á landi er gefin fölsk von. Það er alvarlegt mál að segja við fólk: Árið 2021 verðið þið búin að fá 10.000 kr. lækkun á skatta. Þetta er ekki rétt. Þetta stenst ekki. Það gleymist að segja frá að á sama tíma og þessi skattprósenta, nýi skattstofn, á að koma, lægsti skattstofninn, á að lækka persónuafsláttinn um 5.000 kr. á móti.

Hver gerir svona? Ef það væri einhver meining í þessu og að það ætti að fara að skila einhverjum raunverulegum skattalækkunum til þeirra sem þurfa á þeim að halda og gefa þeim von og segja þeim að þeir fengju þær raunverulega, þá segir maður ekki: Við gefum lægri skattprósentu með annarri hendinni en við tökum af þér með persónuafslætti. Látið a.m.k. persónuafsláttinn vera. Það hefði verið frábært skref, að láta hann bara vera eða hækka samkvæmt neysluvísitölu eins og á að gera. Nei, það er allt of mikið fyrir þessa ríkisstjórn. Það varð að sjá til þess að þeir sem minnst hefðu fengju ekki þessa hungurlús sem átti að skammta þeim.

Þá segir hæstv. fjármálaráðherra að nýja skattþrepið eigi að gagnast eitthvað. En við erum að tala um fólk sem lifir í dag á 215.000 kr. útborguðum. 70% af öryrkjum fá það. Og það er með ólíkindum að á sama tíma er stór hópur af launafólki sem vinnur fulla vinnu. Hvað er hún að skila því? Jú, 230.000 kr. útborguðum. Ég er viss um það og ég veit það að enginn okkar í þessum þingsal myndi vilja lifa á þeim kjörum. Þess vegna er það fáránlegt að við skulum skammta öðrum þessi kjör.

Hækkun á lífeyrislaunum eldri borgara og öryrkja verður bara 3,5% eða nær helmingi minna en laun eiga að hækka á næsta ári. Enn og aftur er verið að viðhalda fjárhagslegu ofbeldi undanfarinna áratuga gagnvart þeim hópi fólks sem hefur það verst í okkar þjóðfélagi. Er í fjárlagafrumvarpinu leiðrétting gagnvart þessum hópi aftur í tímann eins og við þingmenn, ráðherrar og allir aðrir launamenn hafa fengið? Nei, nei, nei. Ekki til umræðu. Loforð um leiðréttingu og að þeirra tími væri kominn? Nei, ekkert. Yfirlýsing um að þessi hópur gæti ekki beðið lengur? Innantóm orð, enn og aftur. Þeir 5.300 öryrkjar, sumir á launabilinu 300.000–350.000 kr. á mánuði í lífeyrislaun, eins og var talað um hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan, er fólk sem fær úr lífeyrissjóði og laun og verður skert fjárhagslega að öllum líkindum ári seinna. Því miður er í flestum tilfellum ekkert að marka heildarútborgun launa öryrkja vegna skerðingar eftir á. Það tel ég vera mannréttindabrot því að þeirra réttu greiðslur leiðréttast ári seinna en það kemur hvergi fram. Það er alveg með ólíkindum að það skuli vera leyft að hafa kerfið svona, að það skuli vera hægt að setja á blað að einhver sé með 350.000 kr. á mánuði í heildarlaun yfir árið en lendi svo í skerðingum ári seinna. Ég hef lent í því sjálfur að hver einasta króna frá Tryggingastofnun ríkisins í heilt ár var tekin af mér ári seinna. En kom það fram á skattskýrslu? Kom það fram einhvers staðar? Nei, svona fela þeir gjörðirnar, sem er ömurlegt vegna þess að það er engin þörf á því, það á að vera hægt að sýna þessar tölur í rauntíma.

Þá talaði hæstv. fjármálaráðherra um 8 milljarða kr. framlag til byggingar nýs Landspítala, þ.e. hækkunin. En á sama tíma er þar rekstrarhalli. Það virðist ekki vera hægt að koma rekstri spítalans í viðunandi horf. Þá benti hæstv. fjármálaráðherra á að margir lífeyrisþegar hefðu ekki byggt upp réttindi í lífeyrissjóði og stæðu því verr. En hvað um að hætta að skerða fyrstu 60.000 kr. af mánaðargreiðslum úr lífeyrissjóði? Það sparkar verst fjárhagslega í konur. Svokallaðar skerðingar upp á 60.000 kr. eru í mörgum tilfellum eignaupptaka á öllum lífeyrissjóðsgreiðslum viðkomandi. 100% skattur í boði þessarar ríkisstjórnar. Er það ekki óvirðing við fólk sem er að fá úr lífeyrissjóði, að stórum hluta konur sem hafa unnið sér ótrúlega lítinn rétt úr lífeyrissjóði, frá 10, 15, 20, 30 upp í 60.000, að það sé allt tekið? Auðvitað er þarna mismunun líka vegna þess að á sama tíma höfum við sett 25.000 kr. frítekjumark fyrir eldri borgara. Hvers vegna mismunum við þessu fólki? Og hvers vegna í ósköpunum erum við líka að mismuna að því leyti til að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum fá 30.000 kr. meira en öryrkjar? Öryrkjar þurfa örugglega á 30.000 kr. að halda vegna lyfjakostnaðar og ýmiss kostnaðar sem þeir þurfa að standa undir.

Hækkun barnabóta og hækkun skerðingarmarka þeirra dugar engan veginn til því að það er verið að hækka öll gjöld. Gjöld eru ekkert annað en skattur. Hvað í ósköpunum ætlum við að segja við fólk sem á að fá 3,5% hækkun um næstu áramót, sem eru 8.645 kr. fyrir skatt, þegar búið er að hækka fasteignagjöldin, hækka bifreiðagjöldin, sóknargjöldin, útvarpsgjöldin, búa til nýtt sorpurðunargjald, alls konar gjöld? Ber ríkinu ekki og fjármálaráðherra skylda til þess, þegar hann gefur fólki von um að það fái 10.000 kall, að segja að það komi á móti skerðing persónuafsláttar og öll þessi gjöld sem ríkið leggur á, draga þau frá og segja það hreint út hversu mikið sé eftir? Hvað er það í raun sem þetta fólk er að fá? Af hverju gerir hann það ekki? Jú, vegna þess einfaldlega að hann veit það og er búinn að reikna það út og ríkisstjórnin líka að það er ekki neitt. Það er verið að rétta 10.000 kallinn með vinstri hendi og taka 20.000 kall með hægri hendinni. Og það er skelfilegt og ömurlegt fyrir það fólk sem treystir á að það sé loksins kominn tími á að það fái eitthvert réttlæti. Loksins er búið að segja og reyna að fegra það: Núna er ykkar tími kominn. Þið fáið 10.000 kr. lækkun á sköttum. Ekki trúa því það er rangt vegna þess að það á eftir að draga allt frá, persónuafsláttinn og öll gjöld og nýja skatta sem verða lagðir á viðkomandi.