150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir spurningarnar og andsvarið. Ef við byrjum á krónu á móti krónu. Jú, það er komið í 65 aura á móti krónu, það er gott. En það er langt frá því að vera rétt vegna þess að við vitum að bara með þessari breytingu, í 65 aura, er enn þá verið að taka 8–9 milljarða á hverju ári sem eldri borgarar eru þegar búnir að fá en öryrkjar fá ekki. Það er því miður ekki gott afspurnar.

Og hitt líka, 3,5% kauphækkun öryrkja er rétt rúmlega helmingur af því sem launþegar fá 1. apríl. Af hverju fá öryrkjar og eldri borgarar aldrei það sama og launþegar? Af hverju fá eldri borgarar og öryrkjar ekki lífskjarasamninginn eins og aðrir fengu?

En hvernig eigum við að skera þetta bákn niður? Jú, við gætum byrjað á því að skera eitt stórt bákn í burtu og láta það bara vera eins og alla hina, á venjulegum markaði, RÚV, Ríkisútvarpið, 4–5 milljarðar þar. Við gætum líka hugað að utanríkismálum. Þurfum við að vera með öll sendiráðin, alla þessa sendiráðsfulltrúa? Við getum farið í svona naflaskoðun úti um allt og ég segi fyrir mitt leyti að ég vil frekar að við förum í að skera eitthvað svona niður til þess einfaldlega að þeir sem eiga ekki fyrir mat í dag, ekki fyrir sjálfa sig heldur hafa áhyggjur af því hvort þeir eigi mat fyrir börnin sín, fái framfærslu sem þeir geti lifað af og þurfi ekki að kvíða næsta degi.