150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að þegar kemur að fjármunum inn í almannatryggingakerfið eru þar mjög háar upphæðir. Ég held að við eigum ekki að skauta fram hjá því. Ég veit raunar ekki hvort ég skildi hv. þingmann rétt með það að hann vilji að ríkið komi engan veginn að fjármögnun RÚV. Hann talaði um 5 milljarða. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn er að tala um að við eigum algerlega að hætta stuðningi við RÚV. Það myndi engan veginn duga til. Það þarf miklu meira til. Það þarf að afla peninganna með einhverjum öðrum aðferðum.

Hv. þingmaður talaði einnig um að skera niður í utanríkisþjónustunni. Jú, það er ýmislegt sem má skera niður þar. En þarna er líka gríðarlega mikilvæg hagsmunagæsla almennt fyrir Ísland sem gerir að verkum að við fáum meiri peninga inn í kassann þannig að þar tel ég heldur ekki að sé um einhverjar risastórar upphæðir að ræða. Og ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að mér finnst þetta vera ábyrgðarmál, það eigi ekki að kasta fram frösum eins og þeim að skera ríkisbáknið niður og nota það sem einhvers konar töfralausn til að geta bætt stöðu hópa. Svo einfalt er málið ekki. Ef það væri svo einfalt held ég nefnilega að það væri búið að koma með fjármögnun í það. Ég held að þessi málflutningur sé varhugaverður, þ.e. að blanda því saman að vilja tala fyrir (Forseti hringir.) bættum kjörum hóps sem þarf virkilega á því að halda en nota innantóma frasa eins og þá að skera ríkisbáknið niður á sama tíma á móti eins og það sé lausnin. Það er hættuleg pólitík.