150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það hrekkur alltaf allt í baklás þegar maður talar um niðurskurð. Ég stakk t.d. upp á því að það væri hægt að minnka bákn RÚV niður í eina einfalda rás, öryggisrás. Og það er hægt að skoða allt báknið í heild sinni. Ef við tökum bara heildarfjármálapakkann, 1.000 milljarða, og tökum 2% af því erum við komin með 20 milljarða. Hvað kostar að hækka laun eldri borgara og öryrkja þannig að þau verði skatta- og skerðingarlaus og fari upp í 300.000? Það myndi kosta eitthvað svipað. En við getum fjármagnað það á stundinni með því að styðja frumvarp Flokks fólksins, um sköttun á inngreiðslur í lífeyrissjóði. Það eru 72 milljarðar. Við komum öllu í lag, sjúkrahúsinu, heilbrigðiskerfinu í heild sinni, eldri borgurum, öryrkjum, komum öllu þannig fyrir að allir geti lifað með. Það segir sig sjálft að það að lifa af 215.000 kr. á mánuði, að reyna að lifa af því, er ekki hægt. Við vitum það. Við þurfum ekkert að ræða það meira.

Að koma hingað upp og segja að maður sé með einhverja frasa og það sé ekki hægt að skera niður og ekki hægt að finna peninga í þessi gæluverkefni? Þetta eru ekki gæluverkefni, þetta eru alvarleg mál, fólk sem er veikt þarna úti sem er að hugsa núna á þessari mínútu: Á ég fyrir mat í dag fyrir sjálfan mig? Og ef ég á mat fyrir sjálfan mig, eða ekki, á ég þá mat fyrir börnin? Þetta er staðreynd. Það er hægt að hlæja að því eða gera grín að því, því miður. En það er staðreynd.