150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir mjög athyglisverða ræðu. Stór hluti af ræðunni fór í hin litlu fyrirtæki, sprotana úti um allt land, og ég get tekið undir hvert orð. Við eigum að huga að því að hlúa að þessum fyrirtækjum. Mér fannst þetta mjög frískandi og athyglisvert innlegg í þessa umræðu.

Ég vil nú meina að ríkisstjórnin hafi gert ýmislegt á þessu sviði og vil ég þar nefna endurgreiðslur í gegnum skattkerfið til rannsókna og þróunar sem eiga að nýtast öllum fyrirtækjum. En vissulega eru kannski stærri fyrirtækin, eins og hv. þingmaður kom inn á, betur í stakk búin til að sinna rannsóknum og þróun. Ég hef sjálfur lagt ítrekað fram þingsályktunartillögu sem snýr að opinberri klasastefnu. Hún er einmitt til þess fallin að nýta framleiðsluþættina um allt land og hlúa að slíkum fyrirtækjum með því að byggja brú á milli þekkingarsamfélagsins, skólanna og litlu fyrirtækjanna sem geta í gegnum samvinnu og þátttöku í svona klasasamstarfi nýtt þekkinguna í sínu starfi.

En ég vil þó benda á mjög athyglisvert innlegg frá ríkisstjórninni, þ.e. tækniyfirfærsluskrifstofu. Hún hljómar ekki neitt sérstaklega vel en kom í kjölfar skýrslu sem snýr að þessum efnum. Henni er ætlað að vera brú á milli rannsókna og nýsköpunar sem kemur ávöxtum vísinda og þekkingar til skila og á að nýtast minni fyrirtækjum, litlum fyrirtækjum sem kannski hafa ekki afl ein og sér til að nýta þessa þekkingu og, eins og hv. þingmaður kom inn á, vera nýskapandi eins og þau svo sannarlega eru.