150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:06]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þetta klasamál aðeins, er búinn að skoða það og ekki skal standa á mér að reyna að greiða götu þess. Ég held að það sé bara lóð á þessar vogarskálar. Ég held að það sé kannski enginn einn flokkur sem hefur öðrum fremur staðið að því að einbeita sér of mikið að þessum risafyrirtækjum og risagreinum. En ég held hins vegar að það sé alveg kominn tími til, bara vegna breyttrar þróunar, að við förum að hugsa öðruvísi. Mér fyndist áhugavert að heyra sjónarmið, hvort fólk getur tekið undir með mér að það ætti kannski að skoða stigvaxandi eða stiglækkandi tryggingagjald og ívilna þannig litlum fyrirtækjum.

Ég er líka að tala um breytingar á skattalögum sem hvetja til fjárfestinga, einföldun regluverks og þjónustu þannig að lítil fyrirtæki þurfi ekki að vera á þönum úti um allan bæ ef á bara að stofna lítið fyrirtæki. Ég nefni skattahvata til að styrkja vaxandi fyrirtæki, innan t.d. hugverkageirans, og stoðkerfi atvinnulífsins þannig að fólk sem vill byrja lítinn atvinnurekstur hafi einhvern til að leita til eftir aðstoð og hjálp. Síðast en ekki síst held ég að grundvöllurinn fyrir því að svona samfélag geti í rauninni lifað og dafnað sé að við aukum enn áhersluna á iðn- og tæknimenntun og skapandi greinar. Þar eru náttúrlega mínar áhyggjur töluverðar vegna þess að mér sýnist í fjárlagafrumvarpinu að það séu frekar lækkanir á framlögum til skólanna en hækkanir.