150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir svarið. Ég kom inn á tækniyfirfærsluskrifstofu sem hlaut nafnið Auðna. Ég held að hún ætti að nýtast smærri fyrirtækjum, þótt ég verði að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér starfið síðan þessi nýopnaða skrifstofa byrjaði fyrir ári síðan og hvernig hún hafi nýst. Á bak við liggur skýrsla sem unnin var af Boston Consulting Group, ef ég man rétt. Hún snýr einmitt að hinum kraftmiklu minni einingum um allt land. Ég held að við verðum að huga betur að nýsköpun, rannsóknum og þróun inn í framtíðina og það er auðvitað þessi fagri texti um hagvöxt til framtíðar sem við verðum að hafa í huga. Okkur hefur sem betur fer lánast að auka stöðugt, alveg síðasta áratuginn, framlög til nýsköpunar, rannsókna, þróunar og menntunar. Ef við tökum saman framlög til rannsókna, þróunar og menntunar eru það, ef ég man þetta rétt, um 17,6% sem við höfum aukið um frá því að þessi ríkisstjórn tók við.

Ef við tökum heildarframlögin þá vil ég meina að þau séu að aukast til skólanna og get ekki betur séð á fjárlagafrumvarpinu en að svo sé. En svo verðum við að horfa á menntun í víðara samhengi. Það er menntun og menning. Þar erum við auðvitað að gera mjög margt. Kannski vil ég helst nefna markverðan árangur í því að gera loksins eitthvað í því sem snýr að kennslu og kennarastarfi og hlúa að kennarastarfinu.