150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, við hv. þingmaður leggjumst kannski yfir töflurnar í fjárlagafrumvarpinu saman. Mér sýnist þetta vera heldur lækkun. En gott og vel, við erum alla vega sammála um að það þurfi að sækja fram á þessum sviðum og ég held að við getum verið sammála um ansi margt þegar kemur að þróun atvinnulífsins, bæði til að skjóta styrkari og fjölbreyttari stoðum undir það en einnig að nýta okkur þá eðlisbreytingu sem er að verða á framleiðslu. Við þekkjum í rauninni bara þessa fýsísku framleiðslu þar sem maður ákveður að opna pennaverksmiðju og svo þarf að búa til nýjan penna, nýjan penna og nýjan penna, á meðan hin stafræna vara er þannig að það getur tekið mjög langan tíma að þróa eina vöru en eftir það er varan ókeypis. Hún ferðast á milli heimshluta á broti úr sekúndu án þess að það hafi í för með sér kolefnisspor eða kostnað þannig að fyrir litla þjóð með hátt menntunarstig er það svo áhugaverður kostur.

Við erum öll orðin sammála eftir maraþonumræðuna hér í vor að meira að segja orkuauðlindin sem við héldum að væri óþrjótandi er það alls ekki. Fiskveiðiauðlindin er það ekki heldur en hugvitið, ef við kunnum að beisla það, er svo sannarlega algerlega ótakmarkað. Og reyndar er svo merkilegt með mannsheilann að auðlindin stækkar eftir því sem við notum hausinn á okkur meira og minnkar ef við gleymum því og verðum gagnrýnislaus og tökum öllu sem sjálfsögðum hlut. Þannig að ég bind vonir við að við hv. þingmaður getum unnið saman að góðum málum sem lúta að þessu.