150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, taka undir og þakka þingmanninum fyrir þessa ræðu. Hann varpaði því fram í salinn hvort menn myndu vilja fylgja sér í því að ræða eflingu atvinnulífs á þeim nótum sem hann rakti hér og ég svara þeirri spurningu játandi. Ég sperrti nefnilega eyrun þegar hann fór að tala um hvernig við gætum beitt tryggingagjaldinu og öðrum þáttum til þess. Mér finnst þetta afar áhugavert innlegg og þörf umræða sem hv. þingmaður hefur hér. Mig langaði kannski að taka meira innan úr þingmanninum, þó að ég bíði spenntur eftir framhaldinu sem hann boðaði.

Bæði í yfirstandandi fjárlögum, í fjárlögum seinustu ára og síðan í fjármálaáætlun höfum við lagt 2.500 milljónir til þess að auðvelda ljósleiðaralagnir um byggðir landsins. Ég trúi því og veit að það er þegar farið að breyta atvinnuháttum í dreifðum byggðum og skjóta stoðum undir þau fyrirtæki sem hv. þingmaður nefndi, eins og hugverkaiðnað og ýmsa þjónustu sem hægt er að sinna í gegnum internetið. Ég vil líka nefna átak sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boðaði í stefnuræðuumræðum í gærkvöldi sem er endurskoðun eftirlitskerfis sem atvinnuvegaráðherrarnir báðir hafa hleypt af stokkunum. Þar er um talsvert flókið og viðamikið verkefni að ræða og mig langar að heyra hjá hv. þingmanni viðhorf til þess. Það er ekki einfalt að endurskoða eftirlitskerfi. En það eru ákveðin grunnelement sem við viljum hafa í lagi og megum ekki sleppa. En ef þingmaður gæti kannski aðeins stigið inn í þau átaksverkefni sem ég var að lýsa hér, ljósleiðaraverkefnið og síðan endurskoðun eftirlitskerfis, og rætt hvernig hann myndi áfram vilja vinna þau mál.