150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ljósleiðaraverkefnið er afar mikilvægt. Ég held að við getum verið sammála um að það hefur haft gríðarlega góð áhrif. Ég þekki dæmi víða í dreifðum byggðum t.d. Norðausturlands, þar sem ungt fólk, sprenglært, hefur getað komið heim, stundað jafnvel einhvern búskap með en unnið að þýðingum, grafískri hönnun og alls konar hlutum sem krefjast ekki ákveðinnar staðsetningar. Það sem hefur verið verra við þetta verkefni er að sveitarfélögin hafa kannski verið að bjóða í þetta og þau síst fengið af þeim sem þyrftu mest á því að halda. Það er alla vega upplifunin sem ég hafði af því. Það kann þó að vera misskilningur. En það þarf að tryggja að þetta nái víðar og sé alls staðar og helst í dreifðustu byggðirnar.

Hvað varðar eftirlitskerfið er ég svo sannarlega til í að vera með í að skoða að hvaða leyti hægt er að einfalda það. En eins og hv. þingmaður segir réttilega þurfum við að passa að það sé einhver festa og skýrleiki vegna þess að við þurfum líka að verja félagslega stöðu og félagsleg réttindi fólks og annað slíkt. Mér hefur hins vegar alltaf þótt merkilegt, komandi úr byggingargeiranum þar sem ég vinn stundum með byggingarfyrirtækjum þar sem starfa 70–80 manns og svo eru tveir, þrír smiðir með lítið fyrirtæki sem sinna alveg gríðarlega mikilvægri í þjónustu í litla bænum, að það skuli vera sömu kvaðir á stóra fyrirtækið og það litla þegar kemur að gæðastjórnunarkerfum, ábyrgð og tryggingum og slíku. Þetta er auðvitað algerlega langt umfram það sem þarf að vera. Þannig að stundum gerum við okkur lífið óþarflega flókið. Þetta eru tvö mál sem ég mun örugglega ekki þvælast fyrir í.