150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að þetta síðasta hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni sé alveg rétt og áhugavert. Ég man hvernig skattstjóraembættið breyttist: Um leið og maður setti aðra tána yfir þröskuldinn hér áður fyrr var horft á mann eins og maður hefði orðið ber að einhverju misjöfnu, en það fór yfir í það að vera mjög gott og upplýsandi leiðbeiningarapparat. Þannig á eftirlitið auðvitað að vera.

Ég tek undir að það skiptir ofboðslega miklu máli að við hvetjum til starfa án staðsetningar. Það er bara ekki þannig í lífinu að 75% allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu séu þar bara vegna þess að þau langi svo að búa í höfuðborginni. Það er bara vegna þess að mörg okkar neyddumst til að gera það, þó að hér sé afskaplega gott að vera. Við erum fámenn þjóð í risastóru landi og við þurftum einfaldlega að setja heilbrigðisþjónustuna, menninguna, dómstólana, löggjafann og allt á sama staðinn, þannig að við þurfum svo mikið að sækja hingað.

En með þessari nýju tækni gefst fólki tækifæri á að búa, ef það vill, í heimabyggð. Mér finnst að ríkið eigi að ganga á undan. Umhverfisstofnun er til fyrirmyndar þarna. Hún hreinlega býður að maður geti sótt um hvaðan sem er á landinu og unnið hvar sem er. Ég held hins vegar að það myndi styrkja þessa hugmyndafræði ef við ákveddum að á nokkrum stöðum á landinu, Akureyri, Egilsstöðum, Vestmannaeyjum, Ísafirði — á Hornafirði er svoleiðis setur — væru setur þar sem nokkrar stofnanir og fyrirtæki væru saman og þar sem fólk gæti haft gagn og ekki síður gaman hvert af öðru, drukkið saman kaffi. Einvera fyrir framan tölvu getur verið ágæt í takmarkaðan tíma. Ég held að hitt yrði frjórra og skemmtilegra og mér finnst að ríkisvaldið ætti að beita sér fyrir því að efla slíkar miðstöðvar.