150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum fjárlög fyrir árið 2020 sem þingmenn hafa verið að fara yfir í dag. Ég ætla kannski að einbeita mér að tiltölulega fáum málaflokkum. Svona almennt má segja, eins og margir þingmenn stjórnarflokkanna hafa komið inn á í dag, að verið sé að gera gagngerar breytingar, m.a. á skattkerfinu, í tengslum við þessi fjárlög sem munu nýtast vel í að jafna kjör í landinu, dreifa byrðunum af skattinum jafnar og réttlátar og eftirgjöfinni í skattkerfinu mest til þeirra sem hafa lægstu tekjurnar.

En ég ætla að fókusera meira á nokkra þætti, eins og ég nefndi í upphafi. Það er merkilegt, ef við horfum á það með opnum huga og reynum að rýna það svolítið, að á fjárlögum þessa árs er enn verið að bæta í þau framlög sem við ætlum til heilbrigðiskerfisins og á málaflokkum hæstv. heilbrigðisráðherra er u.þ.b. 8% útgjaldaaukning á milli ára. Þegar allt er tekið saman er aukningin á valdatíma þessarar ríkisstjórnar komin upp í um 32%. Það segir náttúrlega ekki allt en upphæðin fer vel yfir 60 milljarða, er eitthvað í kringum 63 milljarðar, sem hefur verið bætt í þetta meginkerfi. Þarna sjást, vil ég meina, býsna vel áherslur núverandi ríkisstjórnar. Það er augljóst að þau loforð sem farið var af stað með um að bæta myndarlega í þetta meginkerfi okkar og bæta einnig í innviðina hafa gengið eftir. Í undirþáttum þessa mikilvæga kerfis er sérstaklega ánægjulegt að sjá hve styrking heilsugæslunnar hefur verið mikil. Það er ánægjulegt að sjá þær viðbætur sem hafa orðið í málaflokknum rekstur hjúkrunarheimila. Þar er verið að bæta umtalsvert í á milli ára, á þessu ári um 13%, og þó að stór hluti af því sé vegna fjölgunar hjúkrunarrýma er það einmitt sú innviðauppbygging sem hefur verið kallað eftir. Það er einmitt það sem menn hafa verið að biðja um. Það er hins vegar ekki þannig að allt sé fullkomið, ekki enn þá. Sem betur fer eru verkefnin áfram til staðar. Ég beini því sérstaklega til nefndarmanna í hv. fjárlaganefnd, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, að skoðaður verði sérstaklega í meðförum hv. fjárlaganefndar rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna. Þetta er nokkuð sem hefur verið og er inni í stjórnarsáttmálanum, eða er nefnt þar, og er mikilvægt að við reynum að bregðast við þeim áhyggjum sem hafa komið fram á opinberum vettvangi vegna stöðu þessara stofnanna. Það tel ég mikilvægt.

Í annan stað eru í öðrum þáttum velferðarmála, þ.e. málum sem heyra undir ráðuneyti hæstv. félags- og barnamálaráðherra, verið að gera umtalsverðar breytingar. Það er kannski rétt að nefna það, af því að menn átta sig ekki á því, að í málaflokki hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur aukningin á valdatíma þessarar ríkisstjórnar verið 36%, þ.e. um 76 milljörðum hefur verið bætt í hann. Við höfum svo sem heyrt það í umræðunni í dag og í stefnuræðuumræðunni í gær að þingmenn tali um að þarna hafi lítið verið að gert og að þess sjáist engin merki að ríkisstjórnin sé að gera sæmilega hluti. En engu að síður er þarna verið að bæta í. Auðvitað tekur rekstur fyrirbæris eins og ríkisins ekki neinum risastórum breytingum á einu ári eða tveimur, en smátt og smátt er okkur að takast að snúa, skulum við segja, þessu skipi meira í velferðarátt, meira í uppbyggingarátt í heilbrigðiskerfinu, í innviðum, eins og farið var af stað með þegar þessi ríkisstjórn var stofnuð — og það er vel. Það er alltaf ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnir geti staðið við þau loforð sem þær gefa þegar þær fara af stað.

Það er annað sem ekki hefur fengið nægilega mikla athygli í umræðunni í dag og raunar hafa sumir þingmenn í umræðunni í dag tínt til 2,5% hækkanir á hinum og þessum gjöldum hins opinbera á milli ára. Það er að mörgu leyti sérstakt vegna þess að það sem er raunar verið að gera er að hækka fastar krónutöluhækkanir og fastar gjaldahækkanir minna á milli ára heldur en verið hefur áður, þ.e. ekki er fullbætt vísitöluhækkun. Þetta þýðir að ríkisvaldið er með þessum hætti beinlínis að stuðla að því að ýta ekki undir verðbólguna, að draga úr hitanum og pressunni sem er til verðlagshækkana. Þetta er afar jákvætt og mun að því leyti til hafa áhrif til að mynda til að lækka kostnað heimilanna, m.a. vegna verðbóta og vaxta. Það er gleðilegt.

Að lokum langar mig aðeins að nefna þau gleðitíðindi sem eru í fjárlagafrumvarpinu um jákvæðar ívilnanir vegna umhverfisþátta. Það er sérstaklega gleðilegt að verið sé að ívilna áfram og víkka út þær ívilnanir sem koma til vegna umhverfisvænna farartækja. Þar er til að mynda verið að bæta í eftirgjöf af virðisaukaskatti af umhverfisvænum bílum í bílaleigum, sem getur skipt miklu máli og getur skipt miklu máli fyrir ímynd okkar sem umhverfisvæns hagkerfis og lands sem vill raunverulega taka eitthvað til í sínum málum hvað þetta varðar.

Þarna er líka verið að bæta í svokallaða græna skatta og þar held ég að við séum á mikilvægri braut. Auðvitað eru þetta ekki nein risaskref en það er engu að síður stefnt eindregið í þá átt að þeir sem menga borgi en þeir sem leiti leiða til að draga úr mengun njóti þess og það held ég að sé mikilvægt.

Mig langar í blálokin, af því það hefur verið nefnt, ekki bara við þessa fjárlagaumræðu heldur einnig fjárlagaumræðu undanfarinna ára, að ríkisstjórnin sé ekki að gera nægilega mikið til þess að mæta barnafólki, að benda á að einmitt í þessum fjárlögum er eina ferðina til aukið við framlög til barnabóta um ríflega 8%. Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar er hækkunin á barnabótum núna ríflega 37% og það er gríðarlega mikilvægt. Þetta eru mjög mikilvæg skilaboð til barnafjölskyldna í landinu og í rauninni mjög mikilvæg skilaboð til samfélagsins alls: Þessi ríkisstjórn ætlar að leggja sitt af mörkum til að hafa hag barna og fjölskyldufólks í fyrirrúmi.