150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma aðeins inn á málefni sem ég náði ekki að koma inn á í fyrri ræðu þar sem tíminn er naumur. Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir erfðafjárskatt. Hann á að skila í ríkissjóð í þessu frumvarpi um 5,1 milljarði. Nú er verið að lækka skatta á lægstu laun í landinu og við í Miðflokknum fögnum öllum skattalækkunum. En eins og nefnt hefur verið er svolítið óljóst hvort þetta kemur til með að hafa áhrif á millistéttina í landinu, hvort hún þurfi að standa straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst. En ég held að það sé rétt að velta svolítið fyrir okkur nauðsyn þess að lækka erfðafjárskattinn. Hann var hækkaður eftir efnahagshrunið úr 5% í 10% af skattstofni. Það var gert undir sérstökum kringumstæðum og ástæðum og þær voru fyrst og fremst að tryggja ríkissjóði tekjur í erfiðleikum. Nú er staða ríkissjóðs mun betri en engu að síður er skattprósentan enn í 10%.

Það er auk þess athyglisvert að skoða það að Sjálfstæðismenn fluttu á síðasta þingi frumvarp, sem náði ekki fram að ganga, um lækkun á erfðafjárskattinum. Ég sakna þess svolítið að þeir hafi ekki farið með þetta mál lengra í umræðu um fjárlagafrumvarpið vegna þess að þetta frumvarp var bara gott og ég studdi það. Það fól í sér áætlanir um að gera erfðafjárskattinn frekar þrepaskiptan og hann væri 5% af fyrstu 75 milljónum af skattstofni dánarbús og svo 10% af 75 milljónum og yfir.

Við verðum að hafa það í huga í því sambandi að verðmætin sem mynda skattstofn erfðafjárskattsins hafa verið skattlögð áður, bæði í formi tekjuskatta, fjármagnstekjuskatta og eignarskatta. Þá er sá stofn sem er til útreiknings á erfðafjárskattinum í raun og veru tvískattaður með þessum skatti. Því vildi ég koma á framfæri, herra forseti, vegna þess að ég tel að það sé sanngjarnt og eðlilegt að þetta mál verði skoðað í tengslum við það að hér er verið að lækka skatta. Þarna var skattheimta sem var hækkuð verulega, úr 5% í 10% eftir efnahagshrunið, og aðstæður eru allt aðrar en voru þá og ekki eins mikil þörf á því að hafa skattprósentuna þetta háa.

Ég vildi líka aðeins koma inn á, náði ekki að koma inn á það í ræðunni áðan, framlög til landbúnaðarmála og sérstaklega það að undir liðnum Rannsóknir, þróun og nýsköpun í landbúnaðarmálum er hækkun upp á 42 milljónir eða svo, sem verður að teljast frekar lágt framlag í ljósi þess sem fram undan er í landbúnaðinum. Hér verður innflutningur á landbúnaðarvörum, þ.e. kjöti og kjötvörum, eggjum og mjólkurvörum, frjáls frá Evrópusambandinu og það kemur til með að hafa veruleg áhrif á landbúnaðinn og nauðsynlegt að styrkja þróun og nýsköpun í landbúnaði og mæta þeim miklu breytingum sem verða í íslenskum landbúnaði. Því miður verð ég að segja að hagsmunagæsla okkar gagnvart Evrópusambandinu í þessu máli og fyrir hönd landbúnaðarins brást hrapallega og við sitjum uppi með það að hér verða aðstæður í landbúnaði allt aðrar en þær hafa verið. En ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér og segi þetta gott og kem svo inn í umræðuna síðar við 2. umr.