150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að sjá eftir hv. þingmanni úr fjárlaganefnd, mikil reynsla bundin þar. Ég vil kannski aðeins grípa inn í þá reynslu núna þar sem hv. þingmaður hefur setið þar allt tímabilið, bæði fyrir og eftir breytinguna með lögum um opinber fjármál. Hluti af fyrirspurnaröð minni hérna er svolítið að fá álit fólks á stöðunni á þessari svokölluðu innleiðingu. Ég tel að við séum þó nokkuð langt frá því að vera komin á réttan stað og að við höfum ekki byrjað á réttu pörtunum, þ.e. við erum í rauninni ekki einu sinni byrjuð á aðalatriðunum samkvæmt lögum um opinber fjármál. Það er kostnaðarmat, ábatagreining, forgangsröðun verkefna o.s.frv. varðandi stefnu stjórnvalda. Þegar ég skoða lög um opinber fjármál sé ég þetta sem algjört aðalatriði til þess að geta tekið ákveðnar og upplýstar ákvarðanir um það hvort stefnan sé raunsæ eða ekki og hvort verið sé að fara vel með fjármuni almennings eða ekki.

Mér þætti vænt um að fá örstutta yfirferð yfir söguna í þessu og stöðuna núna frá hv. þingmanni.