150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður verður einmitt að skella einu hressu hrósi til fjármálaráðuneytisins vegna gagnvirku vefsíðunnar sem við fengum aðgang að og allir eru með aðgang að og geta flett upp fjárlagaliðum og leitað, mjög sniðug, maður fær góðan samanburð milli ára, mjög flott. Hverjar eru þá ábendingar hv. þingmanns á leiðinni út? Nú þarf hún ekki að pæla í því lengur, komin í aðra nefnd, getur stungið upp á hvaða vitleysu sem er. Hver eru næstu skrefin í innleiðingu á þessu hjá okkur? Mér finnst alla vega að framkvæmdarvaldið ætti að sýna okkur innleiðingaráætlun. Allt í lagi, það er ekki í lögunum, en a.m.k. að sýna okkur að þetta eigi að vera tilbúið á næsta ári, þetta á þarnæsta ári o.s.frv., þannig að við höfum það fyrir framan okkur. Ef við viljum fá einhverja alvöru í það þá myndum við skella því inn í lög um opinber fjármál til þess að framkvæmdarvaldið fari eftir því en brjóti ekki loforðið. Maður býst við miklu meiru en er raunin núna, miðað við hvernig lögin eru og þau eru í fullu gildi. Maður býst við ákveðnum tölum og gögnum og upplýsingum sem maður fær ekki. Þá verður maður frekar vonsvikinn og fallast hendur.

Í mörgum tilvikum hefur maður lent í því að sjá einhverja tölu, t.d. varðandi Landspítalann, og maður pælir í því: Af hverju er þetta þessi tala en ekki einhver hærri tala eða lægri tala? Og þegar talað er um rekstrarvanda, af hverju er það ekki frekar fjármögnunarvandi? Maður fær aldrei svör. Þess vegna bið ég einmitt um kostnaðar- og ábatagreiningu þegar nýir fjármunir fara inn í rammann, þá er alla vega hægt að rekja það í kjölfarið. Það vantar náttúrlega að kostnaðargreina allt það sem er í rammanum en smám saman skiptist það út og smám saman bætist við þannig að lokum fengjum við kannski miklu betri og gagnsærri gögn sem myndu útskýra fyrir okkur af hverju það er þessi tala en ekki einhver önnur.