150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu lýsa yfir ágætri ánægju með það fyrirkomulag sem hér var ákveðið. Ég geri mér grein fyrir að öllum framsögumönnum flokka hefur þótt þetta knappur tími, eins og mér sjálfum. Það er dálítið sérkennilegt að þingsköpin geri ráð fyrir því að undir venjulegum kringumstæðum fái maður 30 mínútur til að kynna frumvarp, stórt eða smátt, en þegar eitt stærsta málið kemur, sem er fjárlagafrumvarpið sjálft, sé tíminn skorinn niður um helming, eða niður í 15 mínútur fyrir framsögumann, og talsmenn flokkanna og aðrir fá tíu mínútur. En engu að síður hefur verið ágætis taktur í þessari umræðu og kannski hefur það tekist með þessu fyrirkomulagi, sem er það sama og var í fyrra, að hafa aðeins snarpari skoðanaskipti. Ekkert okkar hefur neina sérstaka ánægju af því að hlusta á hálftímalangar ræður. Það ekki það sem ég sakna í þessu. Ég vildi samt sem áður nefna að mér finnst hafa verið ágætisflæði í umræðunni og margt mjög gagnlegt komið fram.

Fyrir mig sjálfan stendur það mjög upp úr í stóra samhengi hlutanna að það kemur okkur að gagni núna að hafa búið í haginn fyrir minni vöxt í hagkerfinu. Ég man eftir því að hafa stundum verið í bílnum á leiðinni heim úr vinnunni eða á leiðinni í vinnuna fyrir nokkrum árum síðan að hlusta á útvarpsþætti þar sem menn sögðu: Ja, það eru verkefni sem þarf að leysa, af hverju er ríkið að leggja áherslu á að vera með 30 milljarða afgang? Hvers vegna í ósköpunum þarf að leggja upp með að skila miklum afgangi á ríkisfjármálunum? Það er kannski að birtast okkur núna og er lærdómur sem við verðum að taka með okkur inn í framtíðina að það er ekki á vísan að róa ef menn stilla útgjaldastigið meðan vel gengur það hátt að þeir eiga ekki fyrir útgjöldum þegar hægir á. Það stendur þannig á hjá okkur að við getum núna lagt upp með, á grundvelli þeirrar þjóðhagsspár sem við höfum til að spila með — eða úr að spila, ætti ég kannski frekar að segja — að við stöndum við öll okkar útgjaldaáform án þess að fara í halla.

Það er merkilegt sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að við höfum aldrei áður í þeirri 20 ára sögu sem er tekin til skoðunar í efnahagskafla frumvarpsins verið með frumjöfnuð á sama tíma og hagvöxtur er 1,5% eða minna. Að þessu leyti til höfum við verið að vinna til góðs með því hvernig þingið hefur afgreitt ríkisfjármálin með fjárlögum á undanförnum árum. Við höfum augljóslega lækkað skuldir og við njótum góðs af því að alþjóðlega vaxtaumhverfið er okkur hagstætt um þessar mundir, stutt síðan við tókum erlend lán á 5,5% vöxtum, nú borgum við 0,1%. 0,1 á móti 5,5 fyrir nokkrum árum síðan. Lægri vaxtabyrði hefur augljóslega skilað sér í því að svigrúm vex til að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti. Við segjum stundum að við viljum frekar setja fjármuni í velferð en vexti og við höfum svo sannarlega verið að gera það. Þeir útgjaldaþættir í ríkisfjármálunum sem hafa tekið til sín mestan vöxt eru heilbrigðismál og velferðarmál frá árinu 2017 og það munar mjög miklu hvað þessir tveir málaflokkar, þessi málefnasvið, standa ofar öðrum varðandi forgangsröðun. Heilbrigðismálin hafa tekið u.þ.b. 35% af aukningunni frá 2017 þegar við horfum á þetta fjárlagafrumvarp til samanburðar. Þar erum við að tala um 35% af 110 milljarða aukningu á ári. Þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir en þær gagnast úti í samfélaginu til þess að reka öflugri þjónustu.

Ég vona að enginn taki það óstinnt upp þó að ég nefni að það er mikill munur á umræðunni í dag þegar fram kemur til umræðu fjárlagafrumvarp og þeirri sem var fyrir ekki mörgum árum þegar t.d. nokkrar vikur liðu þar til forstjóri Landspítalans sagðist ekki treysta sér til að vinna við þessar aðstæður, eins og þá gerðist, eða að uppi voru stór orð í þingsal um að fjöldi stofnana og lykilþjónustuþátta á ábyrgð ríkisins væri vanfjármagnaður. Það er mjög mikill munur á umræðunni í dag borið saman við það sem var fyrir einungis örfáum árum um þetta efni. Bara til upprifjunar var líka brugðist við þeirri umræðu á sínum tíma. Við fengum hagstæðari hagspá og við jukum útgjöldin til samræmis við aukið svigrúm sem kom með hagfelldari hagspá að hausti. Ég man ekki betur en að við ykjum útgjöldin í meðförum þingsins um allt að 20 milljarða einn veturinn frá framlagningu fjárlagafrumvarpsins þar til að fjárlög voru afgreidd. Þannig að það er stutt síðan í árum talið. En í efnahagslegu samhengi er einhvern veginn orðið ofboðslega langt síðan þetta var. Við erum komin á allt annan stað hvað þetta snertir.

Það breytir því ekki að það bíða þingsins mörg gríðarlega brýn úrlausnarefni og umræðan í dag sýnir að við höfum sem þing mjög mikinn metnað til þess að þetta sé gert vel. Það hafa komið fram ábendingar um að menn vilji fá betri rökstuðning, betri gögn, betri áætlanagerð, til að réttlæta þau útgjöld sem er verið að leggja til. Það hafa sömuleiðis komið fram í umræðunni sjónarmið um að forgangsröðun sé ekki alveg rétt, að við ættum að vera með hærra hlutfall útgjalda í fjárfestingu. Ég bendi í því samhengi á hagræna skiptingu útgjaldanna sem er listuð upp í fjárlagafrumvarpinu. Það eru alveg rök fyrir því að við ættum við þær aðstæður sem eru uppi í dag að leggja enn meiri áherslu á að fjárfesta í innviðum sem munu gagnast til lengri tíma.

Þannig mætti áfram telja ýmis álitamál sem hafa verið tekin upp og skoðanaskipti sem hafa átt sér stað í dag en ég tel að við séum vel í sveit sett núna til að taka á öllum þessum málum. Við komum eins og undanfarin ár tiltölulega snemma að hausti fram með fjárlagafrumvarp og tekjuráðstafanir sömuleiðis. Nú fær nefndin þessi mál til skoðunar. Fjármálaráðuneytið mun leggja allt kapp á að veita svör og upplýsingar, eftir því sem eftir því verður kallað, og ég óska nefndinni góðs gengis í þessari vinnu, býð fram okkar krafta og óska eftir góðu samstarfi við nefndina.