150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Útgjöld ríkisins hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum, ekki hvað síst í tíð þessarar ríkisstjórnar, eins og meira að segja hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar benti á í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum. Hvergi sést þessi útgjaldaaukning betur en einmitt í forsætisráðuneytinu sjálfu. Þessi ríkisstjórn fór af stað með fjárlög þar sem lögð var til helmingsaukning á framlögum til forsætisráðuneytisins og nú eru lögð til tæp 40% í aukningu milli ára til eins ráðuneytis, til forsætisráðuneytisins.

Hæstv. forsætisráðherra er að undirbúa að byggja nýjan steinsteypukassa fyrir aftan Stjórnarráðið og mun eflaust telja að það afsaki þessa útgjaldaaukningu að einhverju leyti en útgjaldaaukning á sér að sjálfsögðu alltaf einhverjar skýringar í öllum ráðuneytum. Það sem stendur eftir er að ekkert ráðuneyti eykur útgjöld sín eins mikið og forsætisráðuneytið. Það gerir það m.a. með fordæmalausri fjölgun starfsmanna. Nýverið barst svar frá hæstv. forsætisráðherra um fjölgun starfsmanna ráðuneytisins sem sýndi fram á nærri þriðjungsfjölgun starfsmanna á örfáum árum. Ég hygg að ekki séu önnur dæmi um eins mikla fjölgun og eins hraða fjölgun í þessu ráðuneyti eða öðrum, a.m.k. ekki í seinni tíð. Til viðbótar við alla þessa fjölgun hefur núverandi ríkisstjórn slegið öll met í ráðningu pólitískra aðstoðarmanna og er raunar löngu komin upp í þak hvað það varðar, búin að nýta allar þær heimildir sem hún getur hugsanlega fundið til að fjölga aðstoðarmönnum. Enda snýst þessi ríkisstjórn fyrst og fremst um kerfið og sjálfa sig.