150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina. Þó að ég viti að hv. þingmaður aðhyllist rökræna skynsemishyggju, eins og ég hygg að hann hafi kallað sína eigin stjórnmálaskoðun, náði ég ekki alveg röklegu samhengi við síðustu setningu hv. þingmanns um að ríkisstjórnin snerist um sjálfa sig og kerfið. Það er rétt að mikil útgjaldaaukning hefur verið framkvæmd og boðuð í tíð þessarar ríkisstjórnar vegna þess að þörfin var uppsöfnuð. Eða er hv. þingmaður að gera athugasemdir við þau auknu framlög sem við sjáum renna í samgöngur, heilbrigðismál, menntamál og rannsóknir? Allt eru það gríðarlega mikilvægir málaflokkar sem svo sannarlega þurfti að byggja upp. Ég hefði talið, miðað við málflutning hv. þingmanns fyrir síðustu kosningar, að hann væri sammála um þörfina á aukinni fjárfestingu og auknum framlögum til þessara málaflokka.

Hv. þingmaður þekkir vel forsætisráðuneytið enda gegndi hann embætti forsætisráðherra fyrr á tíð. Þá voru laun aðstoðarmanna stundum greidd á lið í fjáraukalögum í staðinn fyrir að koma bara hreint fram í upphafi og setja kostnaðinn fram á fjárlögum þar sem gert er ráð fyrir því að ráða megi fimm aðstoðarmenn, tvo aðstoðarmenn fyrir forsætisráðherra og þrjá fyrir ríkisstjórnina alla. Þetta hefur verið í lögum frá árinu 2013. Ég skammast mín ekki fyrir að setja þessa tölu fram í fjárlagafrumvarpi hvers árs með opnum og gagnsæjum hætti í staðinn fyrir að vera að færa til útgjöld vegna slíkra ráðninga í fjáraukalagafrumvarpi sem mér finnst enginn bragur á.

Ég vissi að hv. þingmaður myndi ræða viðbyggingu við Stjórnarráðið. Alþingi samþykkti á sínum tíma, gott ef ekki í tíð hv. þingmanns sem hæstv. forsætisráðherra, að ráðast skyldi í slíka viðbyggingu við Stjórnarráðið og var það hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna 100 ára afmælis fullveldisins. Við hv. þingmaður samþykktum bæði þessa tillögu og í kjölfarið var einfaldlega gert eins og gert er þegar nýjar byggingar eru byggðar, farið var í hönnunarsamkeppni um slíka byggingu. Ég er raunar sannfærð um að það (Forseti hringir.) verði til hagræðis fyrir forsætisráðuneytið að vera á einum stað til framtíðar. En við getum öll haft okkar skoðun á útliti þessarar byggingar.