150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Yfirferð hæstv. forsætisráðherra um áskoranir innan lands var ágæt. Mér fannst hún hins vegar sleppa því að ræða þær áskoranir sem bíða okkar alþjóðlega, eins og hún tók langan hluta ræðu sinnar í það fyrrnefnda og þar var ég oft sammála henni. Ég veit að hún trúir því innst inni að við þurfum að leggja lóð á vogarskálar alþjóðlegs samstarfs. Nýlega tók hún á móti varaforseta Bandaríkjanna og nýtti þá tækifærið til að halda á lofti grundvallargildum eins og mannúð og ég er ánægður með það. Á sama tíma er það mér óskiljanlegt hvernig forsætisráðherra getur setið með hendur í skauti og látið frá sér fjárlagafrumvarp sem sýnir að 300 millj. kr. eru færðar frá málaflokki þróunarsamvinnu, frá langfátækasta fólki heims, yfir í viðhald á hernaðarmannvirkjum. Mér finnst ógeðfellt að það skuli beinlínis standa í frumvarpinu að skapast hafi svigrúm vegna lækkaðrar þjóðarframleiðslu til að minnka það sem lítið var fyrir og færa yfir í varnaruppbyggingu. Þetta er ekkert ósvipað og að ef heimilistekjur lækka sé svigrúm til að minnka mat fyrir börnin til að endurnýja bílinn.

Ég trúi ekki að ráðherra ætli að láta þingið redda ríkisstjórninni fyrir horn og breyta þessu. Mig langar að heyra viðhorf hennar, hvort ekki komi bara skipanir um það.