150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég átti ekki við að það væri ógeðfellt að miða við þjóðarframleiðslu. Ég átti við að það væri ógeðfellt að nýta ekki frekar aðstæður þegar þjóðarframleiðsla er að minnka til að láta þetta hlutfall hækka. Í staðinn er sagt að það sé svigrúm til þess að láta fé í vopn eða hernaðarmannvirki.

Við erum mjög aftarlega á merinni. Framlag Svíþjóðar er 1,1%, Norðmanna 1% og Danmerkur 0,8%. Finnar sem eru slakastir af þessum löndum eru í 0,55%. Þetta gengur allt of hægt, herra forseti, og það er ótrúlega lítill metnaður falinn í þessu. Ég spyr: Af hverju þorði ríkisstjórnin sjálf ekki að forgangsraða og segja bara: Við ætlum að taka peninga héðan og láta í varnarmálin? Í staðinn er tekið af veikasta og fátækasta fólki heimsins sem verður fyrst og verst fyrir áhrifum loftslagsbreytinga sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur áhyggjur af. (BLG: Og ég.)

Mér finnst ekki nein stórmennska í þessu og mér finnst eiginlega lítilmótlegt af ríkisstjórn að þora ekki eða vilja ekki sjálf gera þessa forgangsröðun skýra í staðinn fyrir að ýta henni með óljósu orðalagi yfir á þingið og segja: Viljið þið gjöra svo vel að redda þessu fyrir okkur? Og nota svo orðalagið að það myndist svigrúm til að taka af fólki og börnum sem deyja, fá ekki lyf og fá ekki mat til að sulla peningum upp á Keflavíkurflugvöll.