150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[09:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér þykir hv. þingmaður allstóryrtur því að hann þekkir vel aðdraganda þessa máls. Það var þingið sem framkvæmdi þessa millifærslu í vor. Það var þingið og meiri hluti fjárlaganefndar sem lagði línurnar með að þingið skyldi gera þessa breytingu við útgáfu nýrrar hagspár sem kemur út á haustmánuðum. Fyrirmæli þingsins eru ekki loðin, þau eru ekki óljós eins og hv. þingmaður gefur til kynna, þau eru algjörlega skýr og þau fylgja samþykkt þingsins um alþjóðlega þróunarsamvinnuáætlun sem hv. þingmaður þekkir mætavel. Mér finnst hv. þingmaður fara vægast sagt loðið með staðreyndir málsins.

Svo skulum við ræða hernaðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og hvernig sú ákvörðun var tekin. Hún byggir á samkomulagi frá árinu 2016 um aukið varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna sem var kynnt á sínum tíma fyrir utanríkismálanefnd Alþingis. Sömuleiðis byggir hún á samkomulagi frá árinu 2017 milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda um þessa uppbyggingu. Hv. þingmaður þekkir þessa sögu mætavel og veit ósköp vel að þarna eru ekki nýjar ákvarðanir á ferðinni sem er verið að standa við heldur ákvarðanir frá árunum 2016 og 2017. Vilji Alþingi taka umræðu um hernaðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og aðkomu okkar að henni, sérstaklega þar sem Alþingi hefur samþykkt skýra þjóðaröryggisstefnu þar sem varnarsamningurinn og aðildin að Atlantshafsbandalaginu er undirstöðuþáttur sem allir flokkar á Alþingi nema raunar minn flokkur hafa staðið á bak við, höfum við sagt skýrt að við fylgjum þjóðaröryggisstefnu sem er grundvölluð á lýðræðislegum meirihlutavilja Alþingis. Við skulum þá bara taka umræðu um það á vettvangi Alþingis og ég held raunar að okkur væri hollt að fara í þá umræðu inni í þingsal þar sem við getum farið nákvæmlega yfir afstöðu okkar stjórnmálaflokka og hreyfinga í þeim málum.