150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar svör og tek undir mikilvægi þess að fæðingarorlof sé lengt. Það hefur verið baráttumál lengi og skiptir fjölskyldur á Íslandi gríðarlega miklu máli, ég tala nú ekki um þegar við horfum fram á þá þróun sem er að verða í dag, að fólk eignast færri og færri börn. Mig langar líka að koma að, og ég sé þess líka stað í fjárlagafrumvarpinu, mikilvægi þess að á sama tíma og við höfum núna verið að setja umtalsvert meiri fjármuni í okkar helstu innviði, bæði efnislega en líka félagslega, sé skilvirkni í ríkisrekstri. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Það þýðir ekki bara það, eins og hér var rætt í einhverri ræðu, að stækka kökuna, heldur hversu góð kakan er. Hver eru gæði þess sem við fáum út úr þessum mikilvægu kerfum okkar?

Að því sögðu langar mig kannski að nefna það sem hæstv. forsætisráðherra kom inn á í stefnuræðu sinni en það er velsældarhagkerfið. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að vera í starfshópi sem var skipaður til að fara yfir þessi mál og þrátt fyrir þá mikilvægu mælikvarða sem við horfum stöðugt á, sem eru landsframleiðsla og hagvöxtur — og ég geri ekkert lítið úr þeim mælikvörðum og hversu miklu máli þeir skipta en þeir segja okkur auðvitað ekki allt — er mikilvægt að horfa til fleiri þátta.

Hæstv. forsætisráðherra kom aðeins inn á fjölskylduna og stöðu barna. Það var áhugavert t.d. að sjá í þeirri vinnu þegar við skoðuðum hvað það væri sem skipti fólk mestu máli að þar er heilbrigðiskerfið nr. eitt, tvö og þrjú. Það skiptir fólkið mestu máli fyrir sjálft sig og er það sem það telur skipta mestu máli fyrir samfélagið allt. Þá verð ég aftur að ítreka að við höfum sett umtalsvert meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið okkar á síðustu árum. En því miður sjáum við ekki enn þá næga skilvirkni og það held ég að verði að vera okkar helsta mál á næstu misserum.

En það væri ánægjulegt ef forsætisráðherra gæti farið frekar yfir sína sýn varðandi velsældarhagkerfið.