150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Á mánudaginn verður haldin ráðstefna í samvinnu forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis um velsældarmælikvarða. Skýrsla þess starfshóps sem hv. þingmaður vísaði hér til, hóps sem hefur unnið mjög gott starf þar sem hafa setið fulltrúar meiri hluta og minni hluta á Alþingi ásamt sérfræðingum, verður kynnt á mánudaginn og þar eru lagðir til grundvallar 39 mælikvarðar á velsæld og lífsgæði sem við getum nýtt okkur til stefnumótunar og nýtt í auknum mæli ef mín sýn verður að veruleika í þessu, t.d. við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga. Ég held að það skipti svo miklu máli að meta árangur af þeim fjármunum sem við setjum í mikilvæga málaflokka, t.d. árangur sem er auðvelt að mæla. Tökum dæmi af greiðsluþátttöku sjúklinga af því að hv. þingmaður nefnir heilbrigðismálin. Hópurinn lét kanna hvað fólki finnst mikilvægast. Mig minnir að heilbrigðismálin hafi verið þar efst, svo húsnæðismál og menntun. Síðan var líka kannað hvað skiptir fólk mestu máli til að verða hamingjusamt og þá var heilsan vissulega ofarlega á baugi en líka tengsl og samskipti. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á fæðingarorlofið því að það hjálpar fólki sannarlega að rækta tengslin og samskiptin.

Ég held að þetta geti verið okkur mjög til góðs, til að beina fjármununum skilvirkar í þá málaflokka sem við viljum forgangsraða til en líka til að mæla hvort þeir skili árangri. Greiðsluþátttaka sjúklinga er að lækka og það er tiltölulega auðvelt að mæla. Annað sem er kannski flóknara að mæla er hvort við tryggjum það að heilbrigðiskerfið sé þannig uppbyggt að fólk sæki sér þjónustuna á þeim stað þar sem er hagkvæmast og einfaldast að ná í hana. Eitt af því sem heilbrigðisráðherra hefur verið að vinna að er hvernig megi draga úr þeim komum á bráðamóttöku sem eiga frekar heima á heilsugæslunni. Þá þarf auðvitað að vera hægt að leita til heilsugæslunnar þannig að þetta kallar á stefnumótun af hálfu hins opinbera. Til að hún beri árangur þurfum við að hafa fjölbreyttari mælikvarða og þá sjáum við hugsanlega tækifæri til að færa til fjármuni því að þetta má ekki bara snúast um aukna fjármuni.