150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynningu hennar og sýn á fjárlög. Ég vil spyrja um kannski frekar nákvæmt atriði en mér finnst það tengjast ágætlega hugmyndum um velsældarhagkerfið, þótt það sé kannski ekki augljóst í fyrstu, en það er mannréttindavernd og þekking stjórnsýslunnar og ráðherra sérstaklega á mannréttindavernd. Ég sé á bls. 168 í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að til stendur að gera fræðsluátak um stjórnsýslulög, siðareglur, um vandaða stjórnsýsluhætti og einnig er nefnt verkefni um áframhaldandi umbætur á bættri upplýsingagjöf til almennings, m.a. með þróun og kynningu á starfi ráðgjafa um upplýsingarétt almennings.

Ég spyr um þessa hluti vegna þess í fyrsta lagi að skýrsla umboðsmanns Alþingis, sem var að koma út núna, leiðir mjög skýrt í ljós að hann telur aðalástæðuna fyrir því að það dregst eins svakalega og raun ber vitni á Íslandi að almenningur fái aðgang að sínum upplýsingum vera þá að það sé ekki næg þekking innan stjórnsýslunnar um rétt almennings til þess að fá aðgang að upplýsingum. Þessi seinagangur skrifast sem sagt á það. Þetta held ég að eigi ekki síður við um ráðherra, því miður. Við sáum það í Landsréttarmálinu, við sáum það í málinu um uppreist æru, að ráðherrar virtust ekki vera með það á hreinu hver væri upplýsingaréttur almennings, hver upplýsingaskylda þeirra væri gagnvart þinginu og hvernig stjórnsýslulög virka almennt og yfirleitt. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Stendur til að útvíkka þetta fræðsluátak til ráðherra í ríkisstjórn?