150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar f framsögu, ríkisstjórninni. Öllum talsmönnum ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra nú rétt áðan — og ég hlustaði líka á hæstv. forsætisráðherra í Í bítinu í morgun — verður tíðrætt um þá miklu kjarabót sem felist í þriðja skattþrepinu, þeirri tilfærslu í skattkerfinu sem eigi að leiða til meiri jöfnuðar. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. forsætisráðherra, því að mér er algerlega ómögulegt að skilja það, hvernig það eigi skila einhverri kjarabót sem kemur til fullra framkvæmda árið 2021. Fátæka fólkið er enn að bíða eftir réttlæti og bíður nú í tvö ár eftir þessari skattalækkun en á sama tíma á að lækka persónuafslátt og það er verið að leggja á alls konar aukaskatta og -gjöld.

Nú geri ég ekki lítið úr því góða sem er að gerast í sambandi við hækkun á barnabótum og öllu því átaki sem augljóst er að ríkisstjórnin er að einhenda sér í í sambandi við húsnæðismál og annað slíkt. Ég er ekki að gera lítið úr því sem vel er gert. En hins vegar langar mig að spyrja að því hvernig í veröldinni — ég get bara ekki skilið þetta, ég er bara greinilega með einhverja tregðu, ég átta mig ekki á því — þetta á að skila einhverri kjarabót til þeirra sem minnst hafa og eru ekki með neitt annað en framfærslu frá t.d. Tryggingastofnun eða láglaunafólki sem vinnur fulla vinnu, er ófaglært og fær undir 250.000 kr. útborgað eftir fulla mánaðarvinnu. Hvernig á þetta að geta skilað sér í einhverri raunverulegri kjarabót fyrir þessa einstaklinga sem alltaf er verið að tala um hér og gera að risastóru, jákvæðu máli? Ég bið bara hæstv. forsætisráðherra að reyna að aðstoða mig í þessu máli. Ég botna hvorki upp né niður í þessu.