150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka hér upp málefni tekjulægstu hópanna. Mér finnst mikilvægt að því sé haldið til haga sem við erum að gera og hv. þingmaður nefnir sjálf þær aðgerðir. Í fyrsta lagi vil ég nefna húsnæðismálin. Þau voru eitt af stóru málum alls síðasta vetrar, umræðan um húsnæðismálin, og sú eðlilega krafa verkalýðshreyfingarinnar að húsnæðiskostnaður myndi lækka sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, þ.e. að sú fjárhæð sem fólk þarf að eyða í húsnæði myndi lækka. Þess vegna lögðum við gríðarlega áherslu á að halda áfram annars vegar framlögum til uppbyggingar á félagslegu húsnæði og hins vegar að taka inn ný úrræði til að styðja við fólk sem er að kaupa sína fyrstu eign þannig að fólk hefði ákveðið val. Við værum að draga úr húsnæðiskostnaði sem liði af ráðstöfunartekjum. Þetta eru aðgerðir sem ég vonast til að muni skila sér með jákvæðum hætti til tekjulægstu hópanna.

Ef við tökum skattkerfisbreytingarnar er það svo að þau sem fá mest út úr þessum breytingum er hópurinn sem er með 325.000–350.000 kr. í heildarlaun. Þetta eru lægstu launin. Þetta fólk mun borga um 125.000 kr. minna í skatt á ári. Þegar við leggjum þetta saman við barnabæturnar, ef um er að ræða barnafólk — og auðvitað eru ekkert allir barnafólk en það er líka dýrt að eiga börn — getur þetta numið í raun og veru þrettánda mánuðinum í launatekjum á ári. Ég held að þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda skipti máli að halda þessu öllu til haga, að við séum að fara í aðgerðir til að lækka húsnæðiskostnað, styðja sérstaklega við barnafólk og tryggja að skattkerfisbreytingar gagnist best hinum tekjulægri. Þetta leysir ekki öll mál. Ég er alveg meðvituð um það, eins og hv. þingmaður bendir á. Það sem ég er að segja er að allar okkar aðgerðir eru hugsaðar til að mæta þessum hópi.