150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra andsvarið. Spurningin er einföld, afskaplega einföld. Ég ætla að endurtaka að ég er ekki að gera lítið úr því góða sem verið er að gera, alls ekki. En hins vegar ber ég aðallega hag þeirra fyrir brjósti sem minnst mega sín og eiga virkilega undir högg að sækja, þeirra sömu sem forsætisráðherra, þegar hún var ekki forsætisráðherra fyrir réttum tveimur árum, sagði um: Fátækt fólk getur ekki beðið eftir réttlæti. En staðreyndin er sú að fátækasta fólkið er enn að bíða eftir réttlæti. Auðvitað er ofsalega gott að geta gengið í gegnum lífið með bjartsýni og bros, það bjargar deginum. En það eru rosalega margir þarna úti sem geta ekki brosað.

Þess vegna spyr ég aftur um þessa skattalækkun. Það eina sem ég sé virkilega jákvætt og kemur öllum vel sem á þurfa að halda er í rauninni vaxtalækkunin sem er komin í 1% og enn eru á lofti teikn um að þetta sé byrjun á góðu og áframhaldandi vaxtalækkunarferli, sem er náttúrlega vel og nýtist okkur öllum, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hefði viljað sjá og ég kalla eftir því virkilega að á sama tíma og er verið að tala um 10.000 kr. betri afkomu einstaklinga árið 2021 sem standa hvað höllustum fæti sé litið heildstætt á myndina. Hvað gerir það fyrir þetta fólk þegar verið er að leggja á það aukaálögur, hvort sem það er í formi kolefnisgjalds eða í formi annarra skatta, urðunargjalds eða grænna skatta? Auðvitað þurfum við að gera þetta allt saman og þetta er nauðsynlegt. Jörðin okkar er í vanda og við eigum bara eina jörð. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það á ekki að bitna á þeim sem geta ekki alið önn (Forseti hringir.) fyrir sér frá degi til dags og hafa ekki efnahagslegan stöðugleika í sínu lífi.