150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég nefndi áðan að grænar ívilnanir og græna skatta verður auðvitað að útfæra með þeim hætti að ekki bitni á þeim tekjulágu sérstaklega. Það verður að sjálfsögðu hugmyndafræðin við þessa útfærslu. En um leið er það svo að ef við ætlum að ná árangri í umhverfismálum, eins og ég veit að hv. þingmaður og ég erum sammála um, þurfum við skýra efnahagslega hvata. Ísland stendur öðrum löndum langt að baki t.d. þegar kemur að urðunarmálum, m.a. vegna þess að við höfum ekki innleitt urðunarskatt sem önnur lönd hafa gert því stundum þarf bara efnahagslega hvata til þess að hegðun breytist.

Þegar kemur að þessum hópum held ég að það sé mikið ánægjuefni að við erum að innleiða breytingu sem tekur upp nýtt lágtekjuþrep og þá getum við sagt að við séum komin á par við Norðurlöndin í því hvernig við byggjum upp skattkerfið okkar. Það er auðvitað það módel sem ég vil byggja á og ég held að hv. þingmaður og ég séum sammála um að það geri skattkerfið réttlátara. Við getum deilt um hversu hratt á að fara í þessa breytingu. Í upphaflegri fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að hún yrði innleidd á þremur árum. Við erum að ganga lengra í þessu fjárlagafrumvarpi og ætlum að innleiða hana á tveimur árum. Það er einmitt af því að verkalýðshreyfingin hefur líka lagt fram skýra sýn um að hún vilji sjá þessum breytingum flýtt. Við erum því að flýta þessum breytingum. Þetta mun ekki bara skipta launafólk á almenna vinnumarkaðnum máli, þetta skiptir launafólk á opinbera markaðnum máli, en ekki síður öryrkja og aldraða sem ég veit að standa hjarta hv. þingmanns nærri. Þetta, ásamt vaxtalækkuninni sem hv. þingmaður nefndi, mun allt skila sér til þessa hóps. Ég hef bjargfasta trú á því að við munum sjá áhrif þessara breytinga birtast í auknum jöfnuði í samfélaginu og í því einmitt að fólk almennt muni hafa það betra. Ég held að þetta sé á hárréttum tímapunkti þegar kemur að hagsveiflunni þannig að það mun allt skipta máli og verða til þess að aðgerðir stjórnvalda gagnist (Forseti hringir.) fyrst og fremst hinum tekjulágu eins og hv. þingmaður kallar eftir.