150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir töluna um mál ráðuneytisins og það sem er í fjárlagafrumvarpinu. Þar sem þetta er svo stór málaflokkur sem heyrir undir ráðherrann ætla ég að reyna að einangra mig við ferðamálin. Talað er um jafnvægisás og að Ísland sé leiðandi og um sjálfbæra þróun í ferðamálum. Nú hafa verið miklar sveiflur í ferðamálum og í ferðamannaþjónustunni undanfarin ár, eðlilega. Þetta er alltaf í þróun, nú er niðursveifla og alltaf þegar það er niðursveifla þá bitnar það fyrst á jaðarsvæðum. Í frumvarpinu er talað um að ferðaþjónustan eigi að vera leiðandi í sjálfbærri þróun og eins og kom fram í ræðu ráðherrans eiga Geysir og Skaftafell að vera fyrirmyndaráfangastaðir. Gott og vel.

Nú þegar niðursveifla er hefur álagið fyrst farið af jaðarsvæðunum, sem ég nefndi þarna fyrst. Ferðaþjónustuaðilar, þeir sem fara í þá starfsemi, bera ugg í brjósti við að fara út í slíka starfsemi og mig langar að spyrja ráðherrann: Er eitthvað í pípunum sem gæti frekar stutt jaðarsvæðin við að halda sjó í ferðamannaþjónustu svo að við getum talað um sjálfbærni í kringum allt landið?