150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Það er fjölmargt áhugavert í því fjárlagafrumvarpi sem við fjöllum hér um. Hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flutti ræðu í fyrradag um stefnuræðu forsætisráðherra og kom þar m.a. inn á mikilvægi þess að við aukum afköstin á snjallari og útsjónarsamari hátt og sagði, með leyfi forseta: „Fjárframlögin mega ekki vera helsti mælikvarði okkar á árangur eins og mér finnst við í þessum sal allt of mikið tala út frá.“

Ég er að mörgu leyti sammála því og ég held að auðvitað eigum við alltaf að reyna að finna leiðir til þess að besta nýtinguna á skattfé ríkisins. En eftir að hafa skoðað fjárlagafrumvarpið er ég líka ekki hissa á að hæstv. ráðherra hafi dregið akkúrat þetta fram. Það virðist sem framlög til stoðkerfis stærsta atvinnuvegar landsins séu skorin niður. Heildargjöld málefnasviðsins Ferðaþjónusta lækka um 13% milli ára. Rekstrarframlög til Ferðamálastofu lækka t.d. um 12,4 millj. kr. milli ára. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í því samhengi: Hvernig verður með framlög t.d. til markaðsstofa landshlutanna? Mun skerðing verða á framlögum til þeirra? Það er ekki auðvelt að lesa það út úr frumvarpinu.

Vissulega er virðingarverð áhersla hæstv. ráðherra á langtímastefnumótun í málaflokknum og ég er sammála þörfinni fyrir þá áherslu. En það þarf einnig að bregðast við til skemmri tíma og ljóst er að verið er að draga úr framlögum til málaflokksins á óheppilegum tíma fyrir atvinnugreinina. Þar munar vissulega mest um framlög til flugþróunarsjóðs og markaðsverkefna í Norður-Ameríku.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið æskilegra að fá að nýta þetta fjármagn innan sama málaflokks, nýta fjármagnið til að styðja við og auka þekkingu innan greinarinnar og setja enn meira í markaðssetningu Íslands? Þá held ég að sé líka mjög mikilvægt að styðja greinina í átt að aukinni sjálfbærni, ekki síst hvað snertir umhverfismál og verkefni sem stuðla að því að minnka kolefnisspor greinarinnar. Væri ekki skynsamlegra að nýta fjármunina t.d. í það, frekar en að skera niður til málaflokksins?