150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fjármunirnir sem úthlutað er til markaðsstofanna eru í rauninni komnir til Ferðamálastofu en við höfum aukið fjármagn til þeirra. Eins og ég nefndi áðan er það stefna mín að efla þær enn frekar. Það á bæði við um ef þær fá fleiri verkefni, þá fylgi fjármunir með, þ.e. verkefni sem við teljum mikilvægt að sé sinnt og við felum þeim að sinna þeim, en líka að þær eflist, hlutverk þeirra verði skýrara, þær verði að mörgu leyti samræmdari þannig að hægt sé að fela þeim ákveðin verkefni. Það getur verið snúið ef engar breytingar verða á vegna þess hversu ólíkar þær eru innbyrðis. Ég held að við séum alveg sammála um mikilvægi þess og það er verkefni sem er fyrir framan okkur.

Hvað varðar flugþróunarsjóð er rétt að fjármagnið fer niður en við höfum því miður ekki nýtt þá fjármuni sem eru í sjóðnum. Ég hef engar áhyggjur af framtíð sjóðsins. Þar sem þetta er sjóður þá flytjast fjármunirnir á milli ára, þar eru fjármunir, og ef svo skemmtilega vildi til að allt í einu myndu umsvifin aukast þannig að peningarnir færu að fara hraðar úr honum má segja að það væri ákveðið lúxusvandamál sem við stæðum frammi fyrir því að það myndi þýða marga góða hluti fyrir þau svæði sem njóta góðs af. Þannig að flugþróunarsjóðurinn lifir áfram. Við erum ekki að leggja hann niður. Fólk getur alveg litið svo á að það sé tryggt og traust að hann verði þarna til að vinna áfram að vonandi fjölgun gátta og meiri umsvifum.

Varðandi umhverfismálin erum við með aðgerðir sem snerta orkuskipti og snúa sérstaklega að fjölgun hleðslustöðva við gistiheimili og hótel. Við erum því að leggja okkar af mörkum. En ég verð líka að leyfa mér að fagna frumkvæði greinarinnar sjálfrar í því. Mér finnst greinin sjálf farin að verða mjög meðvituð um mikilvægi þess að minnka kolefnisfótspor. (Forseti hringir.) Sum fyrirtæki eru að gera stórkostlega hluti (Forseti hringir.) og ég held að þau sjálf sjái sérstöðuna sem í því felst og þar með að það sé líka gott fyrir viðskiptin (Forseti hringir.) að sinna því mjög vel.