150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:51]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið þó að ég hefði reyndar viljað að hún kæmi aðeins betur inn á markaðssetningu landsins út á við og að setja aukið fjármagn í það, sem vissulega er verið að gera svo að ég sé alveg heiðarleg í ræðustól, en ég held að gera þurfi betur og ég held að það hefði verið æskilegt að nýta fjármagnið sem verið er að skera niður inn í þennan málaflokk.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir um flugþróunarsjóð og við ræddum það einmitt í þessum sal í vor. En ég verð samt sem áður að lýsa áhyggjum mínum af flugþróunarsjóðnum. Í umræðum um þetta mál í vor fullvissaði hæstv. ráðherra mig um að hér væri ekki um stefnubreytingu að ræða og ítrekaði það áðan. En er það ekki örugglega líka enn stefna þessarar ríkisstjórnar að fjölga gáttum inn í landið? Mér þætti gaman að ræða það aðeins.

Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum. Vörumerkið Ísland virðist vera að minnka í vinsældum. Þar hefur t.d. sterk króna, hátt verðlag og orðrómur um of marga ferðamenn haft neikvæð áhrif. Við höfum séð töluverða fækkun í komum ferðamanna til landsins á árinu vegna vandræða í rekstri flugfélaga en vissulega hefur vegið aðeins upp á móti að þeir ferðamenn sem koma stoppa lengur og eyða meiru. Það er því jákvætt að setja eigi fjármuni í markaðsátak en það þarf að gera betur ef duga skal og þá má einnig horfa til stöðu sveitarfélaganna. Nú er fyrirséð að útsvar þeirra dragist töluvert saman vegna þessa, jafnvel hátt í 10% í einhverjum tilfellum. Við hljótum að þurfa að bregðast við því sömuleiðis.

Að lokum langar mig að koma inn á nýsköpunarmálin. Ég fagna því auðvitað að nú eigi að koma fram með nýsköpunarstefnu en ég tók eftir því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjármagni hjá fjármálaráðuneytinu til að framkvæma aðgerðir í stefnunni. Ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hvort gert sé ráð fyrir breytingum á stoðkerfi og stofnunum ríkisins sem starfa að nýsköpunarmálum í nýrri stefnu og verið sé að bregðast við því þar, fyrst framkvæmd aðgerða fer inn í fjármálaráðuneyti en ekki í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Gaman væri að heyra aðeins um það líka.