150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[10:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætismálflutning í dag og fínustu fjárlög. Mig langar að ræða nokkra hluti en þó aðallega halda mig við orkumálin, orkustefnu. Ég ætla að nýta þetta tækifæri enn og aftur til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir þá nefnd sem skipuð var til að vinna að framtíðarorkustefnu fyrir þjóðina. Í fjárlagafrumvarpinu má sjá ýmislegt þessu tengt og náttúrlega margt annað mikilvægt sem ég hef ekki færi á að koma inn á. En ég er að velta fyrir mér styrkjakerfi, nýsköpun og því sem lýtur að því að við búum öll við sömu aðstæður. Orkusjóður er mér mjög hugleikinn. Mig langaði kannski að fá hæstv. ráðherra til að koma aðeins inn á hvort hún telji að þar séu nægilegir fjármunir inni til að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem þar eru unnin, sem tengjast svo að einhverju leyti stuðningi við nýsköpun og tækniþróun. Undanfarið hefur sá stuðningur að mestu leyti farið í rannsóknir og þróun í starfandi fyrirtækjum. Megum við vænta þess að núna fari meira beinlínis í nýsköpun utan starfandi fyrirtækja? Það er gríðarlega ánægjulegt að framlag sé aukið til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina um, ef mér reiknast rétt, 11% á milli ára, sem er ofan á aukningu sem hefur áður orðið. Þetta er mjög mikilvægt.

Í tengslum við orkustefnuna, sem ég ætla kannski að koma betur að í næstu ræðu, langar mig að ræða dreifingarkostnað raforku sem er lykilatriði í henni. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi getum við farið í að jafna dreifingarkostnað raforku um allt land?