150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ráðherra talaði um mikilvægi stafrænna smiðja og aðgengis að þeim. Í fjármálaáætlun er talað um að móta skuli umgjörð um stafrænar smiðjur. Tímaáætlunin þar er frá 2020, sem fjárlagafrumvarpið nær til, til 2022. Einfalda spurningin er bara: Hvenær hættum við að móta umgjörð og hvenær förum við að gera eitthvað? Umgjörðin um stafrænar smiðjur er í rauninni mjög skýr. Þetta er mjög þekkt módel. Það er búið að byggja þó nokkrar stafrænar smiðjur, einmitt á því módeli þannig að það er ekkert rosalega flókið, myndi ég segja, að móta umgjörð. Þetta snýst kannski helst um að ákveða hvar þurfi að byrja að byggja upp stafrænar smiðjur, staðsetningarlega séð. Við þurfum ekkert að bíða í þrjú ár eftir að byrja á því. Alþingi samþykkti þetta fyrir ári og einu sumri síðan. Nú tekur við þriggja ára ferli verkefna við að móta umgjörð. Ég klóra mér dálítið í hausnum yfir því hvort þetta sé það sem Alþingi samþykkti þegar allt kemur til alls.

Það vantar t.d. í þetta kostnaðinn, eins og ég hef talað um oft áður. Ef það fylgdi einhver kostnaður þessu verkefni sem væri augljóslega meiri en kostar að móta bara umgjörð gæti maður spurt: Fyrirgefðu, af hverju er svona dýrt að móta umgjörð? Það er af því að það eru framkvæmdir inni í þessu líka en við sjáum það ekki og getum ekki spurt um það. Þetta er mjög ósýnilegt og ógagnsætt. Ég er sammála því að þetta er gríðarlega mikilvægur vettvangur, stafrænar smiðjur, aðgengi að þeim er afar mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra sagði, en einfalda spurningin er: Hvenær byrjum við?