150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:14]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum með til umræðu fjárlögin fyrir árið 2020. Það hefur verið mikið rætt og ritað um orkumál á liðnu ári. Það er jákvætt, enda skipta orkumál okkur öll miklu máli og koma við öll heimili og atvinnugreinar í landinu. Það er undirstaða hagsældar að við búum við örugga orku og að henni sé veitt jafnt og örugglega um allt land. Ferðaþjónustufyrirtæki eru hér um allt land og mörg eru í dreifbýli. Því skiptir þrífösun rafmagns miklu máli. Meira en fjórðungur dreifikerfis Rariks er einfasa og nokkuð mikið vantar upp á að dreifikerfi Orkubús Vestfjarða sé þrífasa. Þrífösun er mikilvæg út frá orkuskiptum, byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnutækifærum í hinum dreifðu byggðum. Því er ánægjulegt að sjá að í fjárlögum er gert ráð fyrir að það eigi að leggja 80 milljónir á næsta ári til átaksverkefnis og sömu upphæð næstu þrjú árin. Þar er áherslan á að ljúka þrífösun rafmagns í Skaftárhreppi og Mýrum. Í nýsamþykktri byggðaáætlun er áhersla lögð á að hraða þrífösun um land allt og gengið er út frá því að veittir verði styrkir úr Orkusjóði til að vinna verkið.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort liggi fyrir ákveðin áætlun til lengri tíma en þessara þriggja ára um þrífösun rafmagns, og ef svo er: Hvað er lagt til grundvallar í þessari áætlun og hvenær sér hæstv. ráðherra fyrir sér að slíkri vinnu gæti verið lokið?