150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:16]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa mikilvægu fyrirspurn. Líkt og hv. þingmaður kom inn á erum við með þetta átak núna og leggjum áherslu á að ljúka þrífösun bæði í Skaftárhreppi og á Mýrum. Síðan eru fjármunir í byggðaáætlun um 400 millj. kr. sem ég geri ráð fyrir að hægt sé að byrja að nýta í lok næsta árs, ef ég kann rétt frá að greina. Það er vinna í fullum gangi í ráðuneytinu núna. Við vorum með hóp að störfum undir forystu hv. þm. Haraldar Benediktssonar og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var í henni sömuleiðis og fleiri og þar var unnin mjög mikilvæg vinna sem er í rauninni grunnur að því sem við tökum núna áfram inni í ráðuneytinu. Ég sem aðstoðarmaður fyrrverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, fékk að vinna með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þá, í vinnu við ljósleiðaraverkefnið, þar sem hugmyndin var alltaf að reyna að nýta samlegðaráhrifin enn frekar við uppbyggingu ljósleiðara og uppbyggingu þrífösunar. Það eru ákveðin verkefni þar sem enn er hægt að elta þær framkvæmdir sem eftir eru í ljósleiðara.

Mig langar, og það er það sem við erum að vinna að í ráðuneytinu, að reyna að nýta þá hugmyndafræði í uppbyggingu á þrífösun, sem hv. þm. Haraldur Benediktsson hefur leitt undanfarin ár. Við getum ekki eingöngu horft á áætlanir um aldur kerfisins eins og það er heldur verðum við að líta á það hvar eftirspurnin eftir þrífösuninni er. Hvar er þörfin mest? Hvar stendur hún atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum? Og þá komum við sérstaklega inn á landbúnað og ferðaþjónustu. Ég sé tækifæri í því að elta þetta svolítið og reyna að vinna með sveitarfélögum eða aðilum á svæðum til að nýta fjármuni enn betur, því að ég trúi því að það sé hægt að gera sambærilega hluti í þrífösuninni og með ljósleiðarann þrátt fyrir að það sé örlítið flóknara. Gera þetta hraðar fyrir minni pening með því að hugsa aðeins út fyrir boxið.