150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:20]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Þetta er auðvitað mjög mikilvægur þáttur sem hv. þingmaður kemur hér inn á. Við höfum í ráðuneytinu verið að vinna að þessu undanfarna mánuði og það hefur m.a. leitt í ljós ákveðna vankanta, ef ég leyfi mér að nota það orð, á því að vera með eina gjaldskrá. Ég vil a.m.k. vera alveg viss um að við séum ekki að flækja kerfið, við séum ekki að gera það ógagnsærra heldur einfalda regluverk með þeirri breytingu sem við förum í. Markmiðið er alveg skýrt af minni hálfu. Mér finnst mikilvægt, og ég held að það sé ákveðinn samhljómur um það hér, að kostnaður við grunninnviði sé jafnaður. Það er ekki samkeppni á þessum markaði, þ.e. dreifingunni, og eins og ég nefndi áðan eru virkjanirnar almennt úti á landi. Þetta er ákveðið jafnræðissjónarmið sem mér finnst sjálfsagt að horfa til.

Þær 980 milljónir sem settar eru í þetta í dag eru ekki nóg og við erum m.a. að láta greina það nákvæmlega hver fjárfestingarþörfin næstu ár sé. Hvenær erum við þá komin svo að segja upp á topp? Þetta er alveg að fæðast en ég get ekki sagt hér hvaða leið verður farin. Það þarf að fara sína leið og vera pólitískur stuðningur við þær breytingar. En maður finnur mjög víða að það svíður að það sé miklu dýrara sums staðar að dreifa raforkunni, jafnvel þegar hún er framleidd í næsta garði, heldur en á öðrum landsvæðum. Verkefnið er þá að finna leiðir, hvort jöfnunargjaldið er hækkað, hvort þetta sé beinlínis á fjárlögum eða hvað sé hægt að gera. Inn í þetta fléttast síðan auðvitað möguleikar á smávirkjunum og möguleikar á einhverjum breytingum á kerfinu eins og það er. Það er ekki þannig að við höfum bara jöfnunargjaldið eða fjárlög og ekkert annað sé hægt að gera. Ég held að kerfið megi alveg byggja upp að einhverju leyti öðruvísi, t.d. þannig að smávirkjanir séu hagkvæmari en þær eru í dag þannig að það borgi sig enn frekar að fara í svona litlar virkjanir á víð og dreif.

Ég tek undir með hv. þingmanni, umræðan um orkumál undanfarna mánuði mun (Forseti hringir.) vonandi leiða það af sér að við munum halda áfram að ræða það vegna þess að af nógu er að taka.