150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins nýsköpunarmálin við hæstv. ráðherra. Um leið og ég fagna því að verið sé að auka framlög til nýsköpunar milli ára þá sýnist mér samt að heldur sé dregið úr miðað við þau áform sem kynnt voru í fjármálaáætlun fyrr í vor og myndi vilja fá skýringar ráðherra á því hvaða stefnubreyting er þar á ferðinni.

Hins vegar hef ég áhyggjur af tilhneigingu ríkisstjórnarinnar til að ætla að bæta veikleika á öllum mörkuðum sem við erum með hér með auknum ríkisframlögum þegar vandamálin liggja kannski annars staðar. Við sjáum t.d. á fjölmiðlamarkaði að þar á að svara í raun samkeppnisskekkjandi stöðu ríkisins á markaðnum með auknu ríkisframlagi. Í nýsköpun og þróun virðist eina ráðið við gríðarlega óhagstæðu rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja vera að bæta við ríkisframlögin í stað þess að ráðast að vandanum sem er gjaldmiðillinn. Þar horfum við á einfalda staðreynd, sem ég trúi að ráðherra deili áhyggjum mínum af, þegar við horfum á tölur Hagstofunnar um fjölda starfa. Þá sjáum við t.d. að frá árinu 2008 hefur störfum í viðskiptahagkerfinu fjölgað um 20.000, sem er jákvætt þó að þeim sé aðeins tekið að fækka aftur núna í kólnandi hagkerfi. En á sama tíma hefur engin breyting orðið á fjölda starfa hjá hátæknifyrirtækjum, hjá sprota- og tæknifyrirtækjum sem við tölum svo fjálglega um að framtíð okkar byggist á, sem fjórða iðnbyltingin sem við ætlum að hagnýta okkur svo mjög á komandi áratugum byggir á. Það hefur ekkert gerst á rúmum áratug. Hvernig í ósköpunum ætlum við að byggja upp framtíðaratvinnugreinar þjóðarinnar í því umhverfi?