150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við sjáum breytingar. Eftir ákveðinn skell sem við urðum fyrir voru teiknaðar upp alls konar sviðsmyndir og við sjáum betri sviðsmynd nú en margar þeirra sem voru teiknaðar upp. Þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna hafi dregist saman dvelja þeir lengur og eyða meiru. Við sjáum samdrátt í Airbnb, þ.e. breytingar inn á hótelin. Auðvitað þarf að halda til haga að maður getur verið skráður á Airbnb þrátt fyrir að vera á skráðu gistiheimili o.s.frv., þetta er ekki eingöngu heimagisting sem slík.

En hvað varðar heimagistinguna er það rétt hjá hv. þingmanni að þær aðgerðir sem við fórum í skila ótrúlega miklum árangri. Við settum 64 milljónir til viðbótar í eftirlitið. Það hefur skilað sér og gott betur, í rauninni miklu meira, í formi skráningargjalda, í formi sekta, fyrir utan síðan afleiddu áhrifin. Íbúðir fara frekar í sölu eða langtímaleigu sem hjálpar þá þeim og jafnar samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem auðvitað skila öllu sínu og borga, umfram skatta og gjöld, fyrir að vera í atvinnurekstri. Nú erum við að festa þessar viðbætur í sessi í fjárlögum til framtíðar, þannig að við erum þá búin að koma því í ákveðinn farveg. Auk þess gera þær lagabreytingar sem Alþingi samþykkti í vor að verkum að ég trúi því að við munum sjá enn frekari árangur af því að nú erum við að samræma ferlið. Ef maður er í rekstri og svindlar fer það í sama ferli og heimagistingin er í í dag hjá sýslumanni, frá lögreglu sem þarf að forgangsraða sínum verkefnum. Það hefur verið ákveðinn aðstöðumunur ef maður er í rekstri og skilar ekki sínu og ef maður er í heimagistingu og skilar ekki sínu. Þannig að nú er verið að setja það inn í sama ferlið sem ég trúi að muni skila enn frekari árangri, bæði í eftirliti og innheimtu sekta.