150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, ég held að við getum verið bara nokkuð glöð með þann árangur sem er að nást. Þá langar mig að nefna eitt sem líka er athyglisvert og það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Hann virðist standa nokkuð vel. Þessi sjóður hefur nú um 700 milljónir til að úthluta og mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að þessir fjármunir verði nýttir og hvernig hún telji að þeir muni nýtast best.

Svona í lokin þá hefur gjarnan verið talað um svokölluð komugjöld. Við þyrftum kannski ekki að hafa þau nema 1.000 kr. á farseðill til að fá þá kannski 2 milljarða beint í vasann, eins og þar stendur. Þannig að ég spyr bara: Hvað líður þeim áformum? Er í rauninni ekkert verið að skoða þetta? Við gætum t.d. litið til þess sem Nýsjálendingar gerðu og hvernig það skilar sér. Ég tel alla vega að það myndi ekki gera gæfumuninn um komu farþega hvort þeir myndu borga nokkrum krónum meira í þessi svokölluðu komugjöld sem við myndum nýta til uppbyggingar og verndar á þeim viðkvæmu svæðum, mörgum hverjum okkar mestu náttúruperlum, sem eru komin langt yfir þolmörk vegna tíðra heimsókna. Látum þetta duga.