150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:38]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Við erum með nokkuð stöðugan og ágætlega fjármagnaðan Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er auðvitað samkeppnissjóður sem virkar vel til hliðar við landsáætlun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Þar er áætlun hins opinbera á meðan Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er samkeppnissjóður þar sem aðilar, þ.e. einkaaðilar og sveitarfélög, geta sótt um og fengið úthlutað. En það þarf að mæta ákveðnum kröfum og við leggjum núna sérstaka áherslu til að mynda á að þetta sé í samhengi við DMP-vinnu sem við höfum verið í, sérstöðu hvers svæðis fyrir sig, og að fjármunirnir fari þangað.

Sú uppbygging sem hefur verið í gegnum framkvæmdasjóðinn og landsáætlun hefur auðvitað skipt sköpum og mér finnst við núna vera komin með þá mynd sem við þurfum og þetta talar vel saman. Fyrst unnum við að því að koma landsáætlun af stað. Svo voru engir peningar í henni, nú eru komnir fjármunir í hana, þannig að mér finnst við vera komin á algerlega rétt ról.

Við getum síðan farið í frekari breytingar á þessum áfangastöðum sem ég held að séu mikilvægar og snúa helst að stýringu sem verður bæði til að tryggja öryggi, vernda náttúruna og koma í veg fyrir of mikið álag á þessa staði og tryggja að upplifun ferðamanna sé jákvæð. Og af því að spurt er um gjaldtöku er ég þeirrar skoðunar að ein leið til að gera þetta sé að stýra því með gjaldtöku. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um komu- eða brottfarargjald og það hefur verið í skoðun. Ég er ekki viss um að hver ferðamaður myndi setja fyrir sig 1.000 kr., en það er líka hægt að stýra því þegar viðkomandi er kominn til landsins, til að mynda á áfangastöðum. Þar sem við höfum horft á eitt flugfélag fara þá leið sem það fór og flugrekstur, bæði hér og annars staðar, er þungur þá myndi ég ætla að ef flugfélag gæti hækkað sinn flugmiða um 1.000 kr. væri það nú þegar búið að gera það. Mér finnst við þurfa að horfa á það í stóra samhenginu, ekki bara út frá ferðamanninum heldur (Forseti hringir.) líka hvernig hann kemst til landsins og þá skiptir máli að við séum með þetta mikla flugumferð til landsins og megum ekki missa hana.