150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka nýskipuðum hæstv. dómsmálaráðherra fyrir yfirferð yfir málaflokkinn sem sannarlega var allt of stutt og alls ekki hægt að bera niður nema rétt á hæstu steinum. Ég vil líka nota tækifærið til að óska henni velfarnaðar í þessu nýja starfi. Það hefur svo sannarlega ekki verið nein lognmolla í kringum starf dómsmálaráðherra á umliðnum misserum og árum þannig að þess þá heldur þurfa að koma þar aðilar sem stjórna af fagmennsku og festu.

Ég ætlaði í upphafi að spyrja að einu atriði varðandi lögregluna og lögreglustarfið sérstaklega. Við vitum að lögreglustarfið er þannig að þar vinna menn oft við einkar krefjandi og erfiðar aðstæður og stundum þurfa lögreglumenn í starfi sínu að leggja mat á og taka ákvarðanir á örskotsstundu sem svo geta verið afskaplega afdrifaríkar. Ég rifja þetta upp af því tilefni að alltaf annað slagið eru fluttar fréttir af lögreglumönnum sem sitja á sakamannabekk vegna starfa sinna. Margir minnast sakamáls á hendur hjúkrunarfræðingi fyrir nokkrum misserum þar sem niðurstaðan varð sú að viðkomandi hefði unnið við algerlega ófullnægjandi starfsaðstæður. Spurningin lýtur að því að starfsaðstæður lögreglu hafa oft verið til umræðu í þessum sal vegna fáliðunar lögreglu, lögreglumenn eru oft einir í bifreið (Forseti hringir.) úti á landi og langt í aðstoð, og ég spyr hvort hæstv. ráðherra hafi einhver áform um að bæta starfsaðstæður lögreglumanna og ef svo er hver.