150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og einnig hamingjuóskirnar. Ég ætla að byrja á því að segja að auðvitað deili ég þessum áhyggjum. Ég þekki starf lögreglumannsins ágætlega. Ég var lögreglumaður á Suðurlandi í tvö ár og þekki starfsaðstæðurnar. Með þessari ríkisstjórn og síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók við málefnum lögreglunnar hafa aldrei nokkurn tímann farið jafn miklir fjármunir í löggæslu í landinu. Við erum komin núna í fjárheimildum langt fram yfir það sem löggæslan hafði árið 2007, en það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að gera betur.

Við lögðum til viðbótarfjárheimildir árið 2014 í búnaðarkaup, akstur, þjálfun og fjölgun lögreglumanna um 555 milljónir, 2016 um 431 milljón, 2017 um 1 milljarð, 2018 um 307 milljónir og 2019 um tæpan 1,5 milljarð. Þetta er auðvitað ótrúlega mikil aukning. Að mörgu leyti fór hún í að styrkja alla innviði lögreglunnar og á mörg svið vantaði sérstaklega, það voru kynferðisbrotamálin, það var vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og það voru peningaþvættismálin. Svo þurfum við líka að efla hina löggæsluna en allt er þetta almenn löggæsla sem við þurfum að sinna sem ákveðinni heild. Við þurfum líka að bregðast við og höfum brugðist við álagi vegna fjölgunar ferðamanna sem ég veit að hefur bitnað sérstaklega á ákveðnum embættum. Allt þarf þetta að skoða í heild til að tryggja að lögreglumönnum farnist vel í starfi, þeim líði vel og þeir geti sinnt verkefnum sínum á fullum afköstum.