150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina yfir eflingu löggæslunnar. Ég var að spyrja um starfsaðstæður lögreglumanna. Þá er ég að tala um að þeir séu einir á ferð, um menntun þeirra, tækjabúnað, bifreiðakost. Einnig hafa fréttir borist af því varðandi þau mál sem lögreglumenn lenda í, að þeir hafi stundum þurft að reiða fram bætur persónulega. Hvar viðgengst það annars staðar þegar maður er í starfi, t.d. sem smiður eða eitthvað slíkt, að maður sé persónulega ábyrgur fyrir hugsanlega einhverju gáleysi í starfi? Þannig að ég er líka að spyrja hæstv. ráðherra um húsbóndaábyrgðina, hvort hún hafi einhverjar ráðagerðir um að breyta starfsháttum lögreglu varðandi þetta atriði, húsbóndaábyrgð lögregluembætta og ríkisins gagnvart starfi lögreglumanna.

Ég ætlaði reyndar að spyrja um margt annað en myndi kannski byrja á sýslumönnum. Í þingmálaskrá hæstv. ráðherra sé ég frumvarp til laga um breytingu á heimild ráðherra til að skipa sýslumenn tímabundið til fimm ára fyrir einhvern í nágrenninu. þ.e. yfir tvö embætti. Það er ekkert langt síðan að sýslumannsembætti voru sameinuð og það varð aðskilnaður, eins og hæstv. ráðherra þekkir mætavel. Ég vil spyrja hana af því tilefni: Er ætlunin að fækka þeim? Það eru fjögur ár síðan við gengum í gegnum viðamiklar breytingar á embættunum, og nú er ég að tala um sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum þar sem dæmi er um þetta. Er það virkilega þannig að fækka eigi sýslumannsembættum með þeirri aðferð að þessu sinni, fjórum árum eftir að búið er að gjörbreyta umhverfi þeirra, gefast upp á verkefnaflutningum til sýslumanna (Forseti hringir.) og leggja þá niður svona, með heimild til ráðherra, (Forseti hringir.) þegar í lögum eru skýr fyrirmæli um að sýslumenn skuli vera níu á landinu?